Landamæragæsla heyri beint undir ESB

AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur til skoðunar langtímaáætlanir sem fela í sér nýtt fyrirkomulag landsmæragæslu á ytri landamærum sambandsins. Samkvæmt þeim er gert ráð fyrir að sett verði á laggirnar sérstök stjórnstöð landamæraeftirlits sem heyri með beinum hætti undir ESB og sé sjálfstætt gagnvart ríkjum sambandsins. Hugmyndirnar ná til Schengen-samstarfsins sem Ísland er meðal annars aðili að.

Fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com að miðað sé við að áætlunin, sem unnin var fyrir framkvæmdastjórn ESB í sumar, verði framkvæmd í þremur skrefum og geti komið að fullu til framkvæmda á árunum 2030-2035. Hvert skref miði að því að auka miðstýringu sambandsins á málaflokknum. Meðal annars er gert ráð fyrir að landamæraverðir í ríkjum ESB, sem áður heyrðu undir stjórnvöld í hverju ríki sambandsins, heyri beint undir stjórnstöð þess.

Fram kemur í fréttinni að um grundvallarbreytingu yrði að ræða frá því fyrirkomulagi sem sé við lýði í dag enda þurfi núverandi landamærastofnun ESB, Frontex, að leita til ríkja sambandsins vegna búnaðar og landamæravarða. Hlutverk Frontex yrði eftirleiðis einungis bundið við upplýsingaöflun og að halda utan um mannafla og búnað.

Ennfremur segir að hugmyndin sé ekki ný af nálinni og að ríki ESB hafi lýst yfir stuðningi við það á fundi ráðherraráðs sambandsins í júní í sumar að sett yrði á laggirnar samræmt landamæraeftirlit innan þess til þess að efla gæslu á ytri landsmærunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert