Málið í höndum stjórnar Strætó

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó.
Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó. mbl.is/Golli

Meirihluti borgarráðs Reykjavíkur hefur vísað frá tillögu borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um uppsögn ráðningarsamninga við framkvæmdastjóra Strætó bs. Málið tengist bifreiðkaupum fyrir framkvæmdastjórann, sem hann hefur nú skilað. Meirihlutinn segir málið í höndum stjórnar Strætó.

Tillaga Framsóknar var fyrst lögð fram 13. nóvember og var hún lögð fram að nýju á fundi borgarráðs í dag. Hún er svohljóðandi:

„Framkvæmdastjóri Strætó bs. ber ábyrgð á framkvæmd ákvarðana skv. eigendastefnu. Ljóst  er að hann fer út fyrir valdsvið sitt er hann festir kaup á bifreið til eigin nota án heimildar stjórnar til slíks, þó svo að þeirri ákvörðun hafi nú verið snúið við og bifreiðinni skilað, sbr. fundargerð frá 5. nóvember 2014  Í ljósi þess trúnaðarbrests sem átt hefur sér stað og þeirrar ábyrgðar sem framkvæmdastjóri ber, m.a. skv. lögum og eigendastefnu, þá er það tillaga Framsóknar og flugvallarvina að borgarráð beini því til stjórnar Strætó bs. að hlutast til um uppsögn ráðningasamnings við framkvæmdastjóra, þar sem honum sé ekki lengur stætt á að gegna stöðu framkvæmdastjóra áfram.“

Fjórir borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata vísuðu málinu frá en borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins.

„Í tillögu Framsóknar og flugvallarvina er lagt til að borgarráð hafi afskipti af ráðningarsamningi framkvæmdastjóra Strætó bs. við fyrirtækið. Ekki verður séð hvernig slík afskipti geti verið hluti af verkefnum borgarráðs en málið er í höndum stjórnar Strætó,“ segir í bókun meirihlutans.     

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina greiddi atkvæði á móti og lagði fram svohljóðandi bókun:  

„Framsókn og flugvallarvinir líta ekki svo á að það sé undanþegið hlutverki borgarráðs að beina tilmælum til stjórna byggðasamlaga og dótturfélaga um ad hoc málefni er varða stjórnsýslu og stjórnun, enda ber borgarráð skv. 35. gr. sveitastjórnarlaga ábyrgð á stjórnsýslu sveitarfélagsins í rúmum skilningi þess hugtaks.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert