Outlaws-meðlimi dæmdar bætur

mbl.is

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag íslenska ríkið til þess að greiða meðlimi í vélhjólaklúbbnum Outlaws 350 þúsund krónur með vöxtum í miskabætur vegna ólögmætrar handtöku sem hann hafi mátt sæta í október 2012. Málskostnaður hans yrði ennfremur greiddur úr ríkissjóði.

Fram kemur í dómsorði að maðurinn hafi byggt á því að hann hafi sætt ólögmætri handtöku og gæsluvarðhaldi í kjölfar þess að lögregla taldi að hann væri ásamt fleirum að undirbúa aðför að heimilum lögreglumanna sem tekið hefðu þátt í húsleit í húsakynnum Outlaws-samtakanna nokkru áður. „Hann hafi ekki verið staðinn að neinu afbroti né verið með fíkniefni eða vopn á sér. Engin vopn eða fíkniefni hafi fundist í húsleit á heimili hans. Handtakan hafi verið harkaleg þar sem vopnaðir lögreglumenn hafi ráðist inn á heimilið og keyrt alla í gólfið með miklu afli og hafi stefnandi eins og fleiri fengið áverka við handtökuna.“

Héraðsdómur féllst á að ekki hefðu verið færðar sönnur á að maðurinn hefði tekið tekið þátt í skipulagningu á slíkri aðför að lögreglumönnum. Munnlegur framburður vitnis stangaðist á við hans eigin framburð. Maðurinn hafði farið fram á 700 þúsund krónur í bætur en dómurinn taldi sem fyrr segir helming þeirrar upphæðar við hæfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert