„Þau eru magnað fyrirbæri“

Norðurljós yfir Kópavogi
Norðurljós yfir Kópavogi mbl.is/Árni Sæberg

„Þegar það kemur að því að finna norðurljósin skiptir skýjafarið mesta máli. Og náttúrlega smá heppni,“ segir Guðrún Þórisdóttir, sölustjóri ferðaskrifstofunnar Iceland Excursi­ons - Gray Line Ice­land, sem fer með ferðamenn í svokallaðar Norðurljósaferðir. Í samtali við Morgunblaðið í haust sagði Guðrún frá því að farið væri með erlenda ferðamenn í norðurljósaferðir tvisvar á dag. 

„Þetta er búið að vera ansi kaflaskipt síðustu daga og vikur. Það hafa komið slæmir dagar og  góðir dagar, síðasta helgi var til að mynda mjög góð,“ segir Guðrún. Hún segir að það komi þó yfirleitt ekki að sök þó að ferðamennirnir sjái engin norðurljós.

„Við seljum Norðurljósaferðirnar sem ákveðna upplifun sem felst í leit að norðurljósunum. Þetta er ekki þannig að við lofum að þau komi klukkan eitthvað ákveðið og viðskiptavinirnir skilja það. Við fáum ekki kvartanir þó að það sjáist ekki norðurljós.“

Guðrún bætir við að ferðin sé skipulögð þannig að hún sé skemmtileg þó svo að ekki sjáist til norðurljósa. 

„Þetta er alltaf jafn vinsælt og við sjáum það að margir koma eingöngu til Íslands til þess að sjá norðurljósin. Fólk kemur bæði frá Evrópu og Bandaríkjunum en mjög margir koma til dæmis frá Asíu. Okkur Íslendingum finnst norðurljósin svo sjálfsögð en þau eru alveg magnað fyrirbæri. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert