Þingmenn gerast talsmenn barna

Hanna Birna setti setti hátíðina í Laugarlækjarskóla.
Hanna Birna setti setti hátíðina í Laugarlækjarskóla. Ljósmynd/UNICEF

Sérstakur þverpólitískur hópur þingmanna undirritaði í dag yfirlýsingu um að gerast talsmenn barna á Alþingi. Hópinn skipa þingmenn úr öllum flokkum sem hafa setið námskeið á vegum UNICEF, Barnaheilla og Umboðsmanns barna um Barnasáttmálann og notkun hans sem hagnýts verkfæris við ákvarðanatöku og stefnumótun.

Yfirlýsingin var undirrituð á afmælishátíð í tilefni 25 ára afmælis Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem var haldin í Laugalækjarskóla í morgun. Hanna Birna Kristjánsdóttir setti hátíðina og lýsti afmælisár sáttmálans hafið. Að því loknu fóru framkvæmdastjórar UNICEF og Barnaheilla ásamt umboðsmanni barna og innanríkisráðherra fyrir afmælissöng Barnasáttmálans, en Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra lék undir á píanó. 

Settu upp „barnagleraugu“

Þingmannahópinn skipa Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingar, Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna. Við undirritunina settu þingmennirnir upp sérstök „barnagleraugu“ til að muna eftir að líta á málin frá sjónarhorni barna.

„Ég er stolt af því að tilheyra þessum hópi og mun framvegis setja upp barnagleraugun við úrvinnslu mála sem snerta börn og velferð þeirra,“ sagði Elín Hirst við undirritunina.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata tók í sama streng og beindi orðum sínum til barnanna á staðnum. „Þegar við mótum lög munum við hafa það í huga að þau hafa áhrif á ykkur, öll lög hafa áhrif á ykkur.“

Sjónarmið barna komist á framfæri

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi sagði undirritunina afar gleðilegan áfanga. „Börn eiga sér oft fáa málsvara. Því er einstaklega ánægjulegt að sáttmálanum sé gert hátt undir höfði á þessum degi og að þverpólitískur hópur þingmanna heiti börnum og réttindum þeirra stuðningi sem mun hafa áhrif um allt samfélagið,“ sagði Bergsteinn.

Alþingi ákvað einróma að lögfesta Barnasáttmálann í febrúar 2013. Þar sem engin ein þingnefnd á Alþingi hefur það hlutverk að fjalla heildstætt um málefni barna, skapar stofnun þingmannahópsins forsendur til að vinna enn frekar að innleiðingu Barnasáttmálans á Íslandi. Jafnframt er með honum skapaður breiður grunnur fyrir samstarf við stofnanir og félagasamtök sem vinna að málefnum barna.

Með því að gerast talsmenn barna á Alþingi er þingmönnum ennfremur gefið tækifæri til að koma sjónarmiðum barna á framfæri við undirbúning lagasetningar og við stefnumótun á þingi sem og í stjórnsýslunni.  Markmiðið með þingmannahópinum er að þeir tali máli barna í starfi sínu og setji þannig upp „barnagleraugun“ þegar teknar eru ákvarðanir á Alþingi sem varða börn með einum eða öðrum hætti.

Barnasáttmálinn er útbreiddasti mannréttindasáttmáli heims og er afmæli hans fagnað um allan heim á þessum degi.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra lék undir afmælissöngnum.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra lék undir afmælissöngnum. Ljósmynd/UNICEF
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert