Áhöfn Týs lögð af stað

Týr geður klár fyrir Miðjarðarhafið
Týr geður klár fyrir Miðjarðarhafið mbl.is/Árni Sæberg

Varðskipið Týr lagði úr Reykjavíkurhöfn rétt eftir hádegi í gær áleiðis í Miðjarðarhaf, suður af Ítalíu, þar sem skipið mun næstu tvo mánuði sinna landamæragæslu fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins. Ráðgert er að varðskipið verði á þeim slóðum út janúar. 

Beiðni um aðstoð varðskipsins barst í október sl. og var strax hafist handa við undirbúning sem hefur gengið vel með samstilltu átaki starfsmanna, segir á vef Landhelgisgæslunnar. Átján manna áhöfn er um borð í skipinu en nokkrar breytingar verða í áhöfninni á tímabilinu. Einnig verður starfsmaður Landhelgisgæslunnar (LHG) staðsettur í stjórnstöð Frontex og hefur hann það hlutverk að vera milliliður LHG og samstarfsaðila á svæðinu.  

Undirbúningur brottfarar TF-SIF, flugvélar LHG sem heldur til Sikileyjar í lok nóvember, er að hefjast og er ráðgert að SIF verði meira og minna við landamæragæslu út janúar með hléum. 

„Nýverið var yfir 1.800 manns bjargað af þessu svæði, meðal annars um borð í skip Portúgala og Ítala, og má því gera ráð fyrir að þessi verkefni hjá Tý og Sif verði krefjandi og lærdómsrík,“ segir á vef Landhelgisgæslunnar.

Týr undirbúinn fyrir Miðjarðarhafið
Týr undirbúinn fyrir Miðjarðarhafið mbl.is/Árni Sæberg
Varðskipið Týr
Varðskipið Týr mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert