Boltinn er hjá ríkinu

Háskóli Íslands er einn fjögurra ríkisháskóla sem verkfallið mun snerta.
Háskóli Íslands er einn fjögurra ríkisháskóla sem verkfallið mun snerta. mbl.is/Ómar

Áætluðum samningafundi í kjaradeilu prófessora við ríkisháskóla var frestað í dag af hálfu samninganefndar ríkisins. Ástæðan mun vera sú að hlutaðeigandi ráðuneiti höfðu ekki náð að funda frá síðasta samningafundi í deilunni sem fram fór á miðvikudag.

„Það er óvissa í þessu ennþá en viðræðurnar hafa gengið vel á undanförnum fundum. Staðan var sú að ríkið átti eftir að svara okkur og ganga frá ákveðnum þáttum í kringum viðræðurnar en við höfum ekki getað sest niður aftur með þeim. Þetta er allt spurning um fundarhöld,“ segir Rún­ar Vil­hjálms­son, formaður Fé­lags pró­fess­ora við við rík­is­háskóla.

„Það má segja að boltinn sé hjá okkar viðsemjendum,“ bætir hann við.  

Næsti fundur samninganefndanna verður í klukkan 15. á mánudag og segist Rúnar vongóður um að framhaldið fari þá að skýrast. Hann segir hug sinn og samúð vera hjá nemendum og að þó svo að boðað verkfall snerti ýmsa aðra, s.s. erlenda gesti háskólanna, hafi hann ekki eins miklar áhyggjur af því og af nemendunum. 

„Við bara stöndum frammi fyrir því að ef ekki næst saman fyrir 1. des þá skellur á verkfall. Það er blákaldur veruleikinn,“ segir Rúnar. Hann kveðst þó telja að enn sé nægur tími til stefnu og er vongóður um að samningar náist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert