Dreymir um að komast í hundasleðaferð

Snædís Ylfa segist vilja reyna á þolmörk sín og finna …
Snædís Ylfa segist vilja reyna á þolmörk sín og finna út bæði styrki og veikleika sína. Ljósmynd/Snædís Ylfa

Hin 27 ára gamla Snædís Ylfa sækist nú eftir því að komast í 300 kílómetra hundasleðaleiðangur um norðurhluta Skandinavíu. Snædís sótti um í keppnina Fjällräven Polar, sem snýst um það að fá sem flest atkvæði og eiga þannig möguleika á að komast í ferðina.

Sem stendur er Snædís í 31. sæti af 461 þátttakendum, og í 7. sæti af 75 í hennar flokki með 319 atkvæði. Í fyrra þurfti 28 þúsund atkvæði til að komast áfram í flokknum „all other countries“ sem Ísland tilheyrir, og segist Snædís því þurfa alla þá hjálp sem hún getur fengið. Enn er þó 21 dagur eftir af keppninni, og getur því ýmislegt gerst.

Framlag Snædísar í keppnina er myndband sem hún bjó til, en þar má heyra hana fara með ansi hnyttna vísu þar sem hún lýsir áhuga sínum á útivist og ævintýrum. Þá segir hún það draum sinn að komast í Fjällräven Polar ferðina.

Í lýsingu segist hún vilja reyna á þolmörk sín og finna út bæði styrki og veikleika sína. Þá segist hún vilja prófa eitthvað nýtt sem hún hefur aldrei gert áður. Loks segist hún vilja segja barnabörnum sínum söguna af því þegar hún fór í hundasleðaleiðangur.

Snædís er eini Íslendingurinn sem sótt hefur um í keppninni í ár. 

Hér er hægt að kjósa Snædísi í keppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert