Grófu undan trausti að óþörfu

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þráseta Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í embætti og getuleysi Sjálfstæðisflokksins í að taka á lekamálinu hafa grafið undan trausti almennings á grundvallarstofnunum samfélagsins að óþörfu. Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, um afsögn innanríkisráðherra.

„Þetta kemur ekki á óvart og hefði þurft að gerast miklu fyrr. Ég held að þráseta ráðherrans og það getuleysi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt í að taka á þessu erfiða máli hafi að óþörfu grafið undan trausti almennings á grundvallarstofnunum samfélagsins og þeim grundvallarleikreglum sem við viljum hafa í heiðri varðandi eðlilega stjórnhætti í lýðræðisríki,“ segir Árni Páll.

Hvað varðar þá ákvörðun Hönnu Birnu að sitja áfram sem þingmaður segir Árni Páll það vera hennar val sem hann geri ekki sérstaka athugasemd við. 

„Það sem við höfum gert athugasemd við er meðferð hennar á opinberu valdi. Hún axlar nú tilneydd og seint og um síðir þá ábyrgð sem því fylgir,“ segir hann.

Kom ekki fram með kurteisi og virðingu

Í yfirlýsingu sinni lýsir Hanna Birna því hvernig hún hafi brugðist við lekamálinu frá upphafi þess. Þrátt fyrir þau viðbrögð séu „vantraust og tortryggni“ enn til staðar og „ákveðnir aðilar og öfl haldi áfram að halda uppi efasemdum og ásökunum“ vegna þess. 

„Ég hef sýnt því ferli sem hefur verið í gangi við rannsókn þessa máls þá virðingu að svara ekki margítrekuðum rangfærslum hennar um að hún hafi aldrei haft afskipti af málinu og augljósum missögnum sem hafa komið fram á þessu ári sem liðið er. Ég ætla svo sem ekkert á þessum degi að rekja það í smáatriðum. Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni sem hefur fylgst með þessu máli að ráðherrann hefur ekki komið fram með það að markmiði að upplýsa, velta við hverjum steini og svara spurningum af kurteisi og virðingu,“ segir Árni Páll.

Ýmis orð hafi verið notuð um fólk sem spurði spurninga eins og þingmenn Samfylkingarinnar sem hófu eftirgrennslan um málið á Alþingi og gegndu þar með lýðræðislegu hlutverki sínu. 

„Ráðherrann hafði um þau ýmis ófögur orð. Auðvitað líka um þá blaðamenn sem sinntu þeirri grundvallarskyldu í lýðræðisríki að leita upplýsinga um málið. Þá á ég sérstaklega við blaðamenn DV. Það er nokkuð fjarri lagi að hægt sé að búa til ásýnd samstarfsvilja og eindregins vilja til að upplýsa mál nú eftir á,“ segir Árni Páll.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert