Kanna öryggi persónuupplýsinga

Öryggi aðgangsstýringa á málakerfi ríkislögreglustjóra er enn til umfjöllunar hjá Persónuvernd. Stofnunin hefur til skoðunar að ráðast í fleiri úttektarverkefni á næstunni og hefur undirbúningur staðið yfir síðustu misseri. Hefur starfsfólk Persónuverndar m.a. setið námskeið í staðli ISO27001 um upplýsingaöryggi.

Mbl.is sagði frá því í júlí sl. að Persónuvernd hefði gert úttekt á öryggi aðgangsstýringa á málakerfi ríkislögreglustjóra (LÖKE) árið 2010. Gefin var út úttektarniðurstaða sama ár, þar sem lögreglunni var uppálagt að grípa til vissra aðgerða, þar á meðal að móta verklag um innra eftirlit, sem felur m.a. í sér að fylgjast með því hvernig starfsmenn nota kerfið.

Tilmælin til lögreglu voru áréttuð 2012 og 3. júlí sl. barst Persónuvernd bréf frá lögregluyfirvöldum, þar sem gefnar voru skýringar á reglum um aðgang að lögreglukerfinu. Þær eru nú til skoðunar.

Persónuvernd hefur jafnframt boðað athuganir á öryggi persónuupplýsinga hjá Hagstofu Íslands og Vinnumálastofnun. Hagstofan skilaði gögnum í september sl. en úttektin hjá Vinnumálastofnun var boðuð í október.

Þá hefur verið gerð úttekt á öryggi persónuupplýsinga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands og er það mál í vinnslu, samkvæmt upplýsingum frá Persónuvernd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert