Lokað þinghald

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Hjörtur

Þinghald í svokölluðu LÖKE-máli verður lokað, samkvæmt ákvörðun héraðsdóms Reykjavíkur. Aðalmeðferð í málinu hefst 11. mars næstkomandi. Tíu vitni verða kölluð fyrir, fimm af hálfu saksóknara og fimm vitni verjanda.

Það var verjandi ákærða, lögreglumanns sem m.a. er sakaður um að hafa flett upp í málaskrárkerfi ríkislögreglustjóra, sem fór fram á að þinghald yrði lokað. Upphaflega mótmælti ákæruvaldið kröfunni, en að sögn Kolbrúnar Benediktsdóttur saksóknara var það niðurstaða beggja aðila að erfitt yrði að fjalla um uppflettingar í LÖKE í dómssal, án þess að nefna þá á nafn sem flett var upp. Þar sem um persónulegar upplýsingar væri að ræða væri ekki viðeigandi að þinghald væri opið.

Ákærður fyrir tvö brot

Lögreglumaðurinn neitaði sök þegar málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 19. ágúst sl. Verjandi mannsins fór fram á að málinu yrði vísað frá en héraðsdómur hafnaði þeirri kröfu 9. september.

Maðurinn er ákærður fyrir tvö brot í opinberu starfi. Fyrri ákæruliðurinn tengist meintum óeðlilegum flettingum í málaskrárkerfi lögreglunnar, LÖKE, á tímabilinu 7. október 2007 til 16. nóvember 2013. Maðurinn er sakaður um að hafa misnotað aðstöðu sína sem lögreglumaður þegar hann fletti upp nöfnum 41 konu í kerfinu og skoðaði upplýsingar um þær, án þess að flettingarnar tengdust starfi hans.

Í upphaflegu ákærunni var lögreglumaðurinn sakaður um að hafa flett upp nöfnum 45 kvenna en þegar frávísunarkrafa verjanda mannsins var tekin fyrir 28. ágúst var gerð grein fyrir því að honum væri nú gefið að sök að hafa flett upp 41 konu í LÖKE, ekki 45.

Í seinni ákærulið er maðurinn sakaður um að hafa hinn 20. ágúst 2012 sent tölvuskeyti á samskiptasíðunni Facebook um afskipti sín af ungum manni í starfi sínu sem lögreglumaður, sem átti að fara leynt.

Við fyrirtöku 28. ágúst kom fram í máli Kolbrúnar Benediktsdóttur saksóknara, að um væri að ræða dreng með þroskahömlun sem veist hefði að lögreglumanninum. Í samskiptum sínum á facebookspjalli hefði lögreglumaðurinn nafngreint drenginn og sagt frá því hvar hann ætti heima.

Upphaflega þrír með réttarstöðu sakbornings

Mbl.is sagði frá því í apríl að lögreglumaðurinn hefði verið handtekinn fyrir páska, þar sem hann var í sumarhúsi á landsbyggðinni. Hinn 29. apríl staðfesti ríkissaksóknari að embættið hefði ætluð brot hans til rannsóknar og að tveir aðrir menn hefðu réttarstöðu sakborninga við rannsóknina.

Mennirnir tveir voru lögmaður - og starfsmaður fjarskiptafyrirtækis, en grunur lék á að lögreglumaðurinn hefði deilt upplýsingum úr LÖKE með mönnunum í lokuðum hópi á Facebook.

Málið komst upp þegar lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins barst ábending frá einstaklingi nákomnum lögreglumanninum.

Fallið var frá málum gegn lögmanninum og starfsmanni fjarskiptafyrirtækisins, en í júlí sl. sagði Garðar Steinn Ólafsson, lögmaður mannanna þriggja, að tveir fyrrnefndu hygðust leita réttar síns og krefja ríkið um skaðabætur. Sagði Garðar að svo virtist sem handtökurnar hefðu verið með öllu tilefnislausar en gengið hefði verið hart fram gegn þeim.

Öryggi aðgangsstýringa á LÖKE hefur verið til umfjöllunar hjá Persónuvernd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert