Mótmæla áfram þrátt fyrir afsögn

Hanna Birna Kristjánsdóttir var hvött til þess að segja af …
Hanna Birna Kristjánsdóttir var hvött til þess að segja af sér embætti á mótmælafundi sem Jæjasamtökin stóðu fyrir á Austurvelli á mánudag. mbl.is/Kristinn

„Þetta var bara eitt atriði af svo mörgum sem voru undir að þetta breytir engu. Það verður eflaust mótmælt aftur undir merkjum Jæja,“ segir Guðmundur Hörður Guðmundsson, einn skipuleggjenda mótmæla sem verið hafa á Austurvelli síðustu vikur, um ákvörðun Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að segja af sér sem innanríkisráðherra.

Síðustu mótmæli undir merkjum Jæjahópsins svonefnda fóru fram á mánudag en þar var lekamálið tekið sérstaklega fyrir og Hanna Birna hvött til að segja af sér embætti vegna þess. Þó að aðeins hafi liðið innan við ein vinnuvika frá þeim þar til ráðherrann tók af skarið vill Guðmundur Hörður ekki eigna mótmælunum þessa ákvörðun Hönnu Birnu.

„Það er allt stjórnkerfið orðið undirlagt af þessu máli. Það eru fleiri, fleiri embætti og embættismenn sem hafa dregist inn í þetta og eflaust eiga fleiri afsagnir eftir að fylgja. Ég held að þrýstingurinn hafi nú komið víðar en kannski hafa mótmælin spilað eitthvað inn í þessa ákvörðun hennar. Ég leyfi mér þó að efast um það,“ segir hann.

Guðmundur Hörður segir sjálfsagt að Hanna Birna segði af sér. Málið hafi verið slíkt að afsögnin komi ekki á óvart. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um frekari mótmæli undir merkjum Jæjahópsins en þau eru í undirbúningi.

Hanna Birna hættir sem ráðherra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert