Öll úrræði reynd án árangurs

mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Hæstiréttur hefur staðfest niðurstöðu héraðsdóms um að svipta móður forsjá barns síns. Var talið að öll vægari úrræði til úrbóta, stuðnings og aðstoðar við móður barnsins hefðu verið reynd án árangurs.

Í dómi héraðsdóms er rakin saga fjölskyldunnar og að það þjóni best hagsmunum barnsins að svipta móður hans forsjá hans og að honum yrði komið í varanlegt fóstur hjá fósturfjölskyldu. Ekki er fjallað um föður sem forsjáraðila í málinu þar sem móðirin fór ein með forsjá þess þar sem hún og barnsfaðir hennar voru ekki í skráðri sambúð þegar barnið, drengur, sem er átján mánaða gamall í dag, fæddist. Fram kemur í dómi héraðsdóms að faðirinn sé seinfær.

Það er mat sérfræðinga Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins að móðirin sé ófær um að annast drenginn vegna eigin veikinda og þroskaskerðingar auk þess sem hún hafi ekki þroska til að taka við sérhæfðri ráðgjöf vegna læknisfræðilegs ástands drengsins, að því er fram kemur í gögnum sem barnaverndaryfirvöld, sem sóttu málið, lögðu fram fyrir dómi.

Lagður fyrst inn tveggja vikna vegna vanþrifa

Fram kemur að drengurinn er greindur með litningagalla sem hafi ýmsar alvarlegar læknisfræðilegar afleiðingar í för með sér auk þess sem hann sé með vanvirkan skjaldkirtil. Þá liggi fyrir að móðirin hafi sjálf verið greind með þroskaskerðingu og sé að öllum líkindum um að ræða sama litningagalla hjá henni og syninum.

Drengurinn var fyrst lagður inn á sjúkrahús tveggja vikna gamall og þá vegna vanþrifa. Þá hafi komið í ljós að móðir hans mjólkaði ekki nægjanlega og var því ákveðið að gefa honum pela. Þegar drengurinn var lagður inn hafi foreldrar hans haft lítil fjárráð og að þau hafi ekki haft fjármuni til þess að kaupa sér mat. 

Eftir að þau fóru heim með drenginn dafnaði hann ágætlega og þyngdist eðlilega og sagði móðirin að þau fengju góðan stuðning frá fjölskyldu og eins hafi fjárráð þeirra vænkast. 

En þegar drengurinn var um níu mánaða gamall kom fram í mati barnalæknis að hann hefði áhyggjur af velferð drengsins. Hann sé mjög linur og geti ekki haldið höfði almennilega. Drengurinn var þá lagður aftur inn á sjúkrahús til frekari rannsóknar og kom þá í ljós að hann var með vanvirkan skjaldkirtil. 

Styrkur foreldra sú ást sem þau hafa á drengnum

Á fundi með sérfræðingum á spítalanum og fulltrúum barnaverndaryfirvalda um svipað leyti hafi komið fram áhyggjur lækna um að drengurinn fengi ekki þá líkamlegu örvun sem hann þyrfti á að halda. Jafnframt hafi vanþrifnaður foreldra verið ræddur en þau hafi lyktað svo illa að þau hafi verið beðin um að fara í sturtu á spítalanum og fötin þeirra verið þvegin.

Eftir þetta fengu foreldrarnir skipaðan tilsjónarmann sem fylgdist með og veitti þeim aðstoð. Jafnframt var fenginn sjúkraþjálfari til þess að þjálfa drenginn.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að styrkleiki foreldranna felist í því hversu vænt þeim þyki um drenginn og hversu velviljuð þau séu. Í foreldramati sálfræðings kemur fram að það sé mat sálfræðingsins að foreldrar drengsins sýni honum ást og væntumþykju en geti ekki sinnt þörfum hans á viðunandi hátt. Þau séu lítið meðvituð um takmarkanir sínar sem foreldrar og þau finnist stuðningur sem þau hafi fengið inn á heimilið óþarfur. Þessi skortur á innsæi foreldra muni óhjákvæmilega leiða til vanrækslu á umönnun þeirra á drengnum.

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að ljóst sé að úrræði sem hafi verið reynd frá því að barnaverndarnefnd hóf afskipti af málefnum drengsins um það bil mánuði eftir fæðingu hans hafi ekki skilað tilætluðum árangri.

Líkur á að erfiðleikar drengsins aukist með aldrinum

Þar ráði mestu að foreldrar hans hafi ekki náð að tileinka sér ráðgjöf og sérúrræði vegna fötlunar drengsins á fullnægjandi hátt. Einnig liggi fyrir að stuðningur og færniþjálfun hefur ekki skilað viðunandi árangri og móðirin hafi ekki náð að sinna grunnþörfum drengsins svo viðunandi sé. Þá skortir hana innsæi í eigin vanda. Hún eigi erfitt með að treysta fagfólki og vera í virkri samvinnu við það, einkum vegna þroskaskerðingar og persónuleikaröskunar.

Með framtíðarhorfur drengsins í huga beri einnig að líta til álits barnalæknis, þess efnis að erfiðleikar drengsins munu frekar aukast með aldrinum en minnka. Líkur séu á að drengurinn fái ADHD hegðunarvanda og muni eiga erfitt uppdráttar námslega. Þessi vandi kallar sérstaklega á að foreldri sé næmt fyrir þörfum drengsins og geti komið til móts við þær, meðal annars með mikilli samvinnu við fagaðila.  

Það er því mat dómsins að móðirin uppfylli ekki, þrátt fyrir allan þann stuðning sem tiltækur er, þær lágmarkskröfur sem gera verður til hennar sem uppalanda, þannig að hún geti veitt drengnum, sem  býr við alvarlega þroskahömlun, þau uppeldisskilyrði sem nauðsynleg eru miðað við aðstæður hans, heilsufar og þroska. Því verði að telja að hagsmunum drengsins best borgið með því að móðir hans verði svipt forsjá hans. Á þetta féllst síðan Hæstiréttur í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert