Skilorðsbundinn dómur fyrir kynferðisbrot gagnvart barni

Eftir að rannsókn lögreglu lauk, sem var í júní 2013 …
Eftir að rannsókn lögreglu lauk, sem var í júní 2013 eftir því sem gögn málsins bera með sér, liðu 12 mánuðir þar til ákæra var gefin út, að því er segir í niðurstöðu dómara. Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Maður um fertugt var í Héraðsdómi Suðurlands dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gagnvart tólf ára gamalli systurdóttur sinni. 

Honum var í ákæru gefið að sök að hafa í nóvember 2012, á heimili sínu, snert brjóst og strokið rass stúlkunnar sem þá var 12 ára, utan klæða og strokið milli brjósta hennar innan klæða. Til stóð að stúlkan myndi gista á heimili móðurbróðir síns umrædda nótt en svo varð ekki og ók hann henni heim einhvern tímann um kvöldið.

Maðurinn og stúlkan eru ein til frásagnar um atburðarásina á heimili hans og ber talsvert í milli í framburði þeirra, segir í niðurstöðu dómsins. Þó liggur fyrir að þau hafi bæði setið fullklædd í þriggja sæta sófa og stúlkan verið með sæng ofan á sér meðan þau horfðu á myndir í sjónvarpi. Einnig ber þeim saman um að hann hafi beðið stúlkuna að segja ekki frá atburðinum þegar hann ók henni heim umrætt kvöld.

Þrátt fyrir að maðurinn neiti sök játaði hann við skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi að hafa snert brjóst stúlkunnar þegar hún lá við hlið hans í sófanum en vísar til þess að um óviljaverk hafi verið að ræða. Einnig taldi hann mögulegt að hann hefði komið ofarlega við bringu hennar en hún hafi í umrætt sinn verið í flegnum bol. Þá hafi hann, með leyfi hennar, komið við mjaðmir hennar.

Að mati dómsins einkenndist framburður mannsins annars vegar af því að réttlæta samskipti sín við stúlkuna og þær snertingar sem hann þó lýsti að átt hefðu sér stað og hins vegar að leggja á það áherslu að hún, sem ætti það til að ýkja og segði ekki alltaf satt frá, hefði misskilið aðstæður. Þá verður ekki framhjá því litið við mat á saknæmi að hann bað stúlkuna þá þegar um kvöldið að segja ekki frá atburðinum. Að mati dómsins eru skýringar mannsins að þessu leyti ekki trúverðugar.  

Lýsing stúlkunnar á atvikum í skýrslutöku fyrir dómi sé hins vegar skýr og greinargóð hvað varðar þær snertingar sem hún greindi frá að frændi hennar hefði viðhaft í umrætt sinn. Aðspurð um líðan á heimili hans umrætt kvöld kvað stúlkan að sér hefði þótt þetta skrítið og ekki búist við þessu.

„Í síðari skýrslutöku fyrir dómi kvaðst brotaþoli hafa viljað koma aftur fyrir dóm til að koma á framfæri þeirri skoðun sinni, að ekki hafi verið um að ræða alvarlegan atburð sem haft hafi slæm áhrif á sig, og því réttast að gleyma málinu. Hins vegar kom fram hjá brotaþola að umrætt kvöld, og fyrst á eftir, hafi hún ekki verið viss um hvað hún ætti að gera eða hvað þetta hafi verið,“ segir í dómi héraðsdóms.

Telur dómari að sannað sé að maðurinn hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og að sú háttsemi teljist kynferðisleg áreitni í skilningi 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

Það er virt manninum til refsiþyngingar að brot hans beindist að ungri systurdóttur hans meðan hún var í heimsókn á heimili hans. Með því brást hann, sem hafði yfirburðastöðu gagnvart barninu vegna aldurs, trúnaðarskyldum sínum gagnvart henni.

Honum til málsbóta er til þess að líta að hann hefur ekki sætt refsingum svo kunnugt sé. Einnig liggur fyrir samkvæmt vottorði og framburði heimilislæknis ákærða að mál þetta hefur haft alvarleg á áhrif á geðheilsu mannsins og möguleika hans til atvinnuþátttöku. Þá liggur fyrir að dráttur á meðferð málsins var honum ekki að kenna.

Eftir að rannsókn lögreglu lauk, sem var í júní 2013 eftir því sem gögn málsins bera með sér, liðu 12 mánuðir þar til ákæra var gefin út, að því er segir í niðurstöðu dómara. Manninum var jafnframt gert að greiða allan sakarkostnað, rúmlega 1,8 milljónir króna, en bótakröfu var hins vegar vísað frá dómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert