„Þú ert lítil greddupadda“

Maðurinn var dæmdur fyrir smáskilaboð og Facebookskilaboð sem hann sendi …
Maðurinn var dæmdur fyrir smáskilaboð og Facebookskilaboð sem hann sendi unglingsstúlku sem tengd honum fjölskylduböndum.

Héraðsdómari hefur dæmt karlmann á fertugsaldri í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir ummæli sem hann ritaði unglingsstúlku. Má þar nefna ummæli eins og „Ég nudda þig þá bara í sturtunni“ og „Þú ert lítil greddupadda“.

Dómurinn féll nýverið í Héraðsdómi Suðurlands en maðurinn var ákærður fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa á árinu 2012 ítrekað, í samskiptum við stúlkuna, áreitt hana með kynferðislegu orðbragði.

Hér eru aðeins nefnd nokkur dæmi: Smáskilaboðin „Ok ég verd ta bara ad sætta mig flass i stadinn“ og „Tu ert bara svo sjodandi heit...“.

Á Facebook spurði hann hvort hún væri í fötum, sagt að hún sé „svo hott“, hvort hún myndi vilja byrja með honum og að hún hefði skyldum að gegna sem kærasta hans. Einnig að hann myndi gera allt fyrir hana ef hún færi úr fötum, skipað henni að fara úr að ofan og neðan og spurt hvort hann mætti sjá rassinn.

Lögð inn á BUGL 

Í dómi héraðsdóms kemur fram að brotin hafi beinst gegn stúlkubarni sem tengdist honum fjölskylduböndum og hann hafi brugðist trúnaðartrausti stúlkunnar, en hún hefur lýst því að maðurinn hafi verið föðurímynd hennar. Þá verði af framburði vitna í málinu ráðið að brot hans hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir stúlkuna. Hún hafi verið lögð inn á barna- og unglingageðdeild og í framhaldi af því í fóstur.

Fyrir dómi kom fram að brotin áttu sér stað á árinu 2012 er stúlkan var 15 og 16 ára gömul. Kemur fram í kæru að málið hafi fyrst komið til athugunar barnaverndarnefndar í janúar 2012 þegar stúlkan hafi greint frá því að hún hefði óþægilega tilfinningu gagnvart manninum, sem giftur sé móðursystur hennar.

Hún hafi heimsótt hann í 2-3 skipti á vinnustað hans og í eitt skiptið hafi hann boðist til að taka af henni myndir og hafi hún samþykkt það. Undir lok myndatökunnar hafi hann farið að nudda á henni axlir og fætur. Henni hafi fundist það óþægilegt en næsta dag hafi hann leyft henni að keyra bifreið, en hún var í æfingarakstri hjá honum, og beðið hana um að segja ekki frá nuddinu þar sem það gæti misskilist.

Móðir hennar sagði henni að taka þessu ekki alvarlega

Sumarið 2012 skýrði stúlkan sálfræðingi frá því að maðurinn væri að leyfa henni að keyra og hefði í einhver skipti beðið hana um að sýna sér brjóstin í staðinn. Hún hafi tekið þessu sem gríni en fundist þetta óþægilegt og alltaf neitað beiðninni.

Móðir hennar sagði henni að hann léti oft svona og það ætti ekki að taka þetta alvarlega. Um svipað leyti sýndi stúlkan sálfræðingi skilaboð sem hann væri að senda henni og tjáði sálfræðingnum að henni liði illa út af þessu. Svo virtist sem stúlkunni liði betur í nokkra mánuði á eftir en í október 2012 var farið að bera á vanlíðan hjá henni á ný. Hafi einkennin reynst alvarlegri en áður, hún hafi skorið sig í hendur og fætur, sofið illa, matarlyst hafi  minnkað og hún grennst talsvert.

Þann 7. nóvember sama ár hafi hún sýnt sálfræðingi Facebook samskipti sín við manninn og að mati starfsmanna barnaverndar komi fram upplýsingar sem bendi til þess að um grófa kynferðisleg áreitni sé að ræða og jafnvel tilraunir til tælingar, að því er fram kemur í dómi héraðsdóms.

Ekki kynferðisleg áreitni heldur málfar sem þekkist í fjölskyldunni

Maðurinn var yfirheyrður hjá lögreglu í febrúar 2013 og kannaðist hann við að hafa átt þau samskipti við stúlkuna sem mál þetta snýst um. Um hafi verið að ræða ákveðið samskiptamál þeirra á milli sem þróast hafi á rangan hátt. Hafi hann gert sér fulla grein fyrir því að hann hafi verið að biðja hana um að gera hluti sem ekki hafi átt að gera. Hann kvað þessi samskipti ekki hafa verið af kynferðislegum toga og hafi hann verið að grínast.

„Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann kannaðist við að hafa sent brotaþola þau skilaboð er í ákæru greinir, annars vegar með smáskilaboðum og hins vegar á Facebook. Ákærði kvað ekki um kynferðislega áreitni að ræða, um væri að ræða málfar sem þekkist innan fjölskyldu brotaþola, m.a. tali móðir hennar á þessum nótum og sé um grín að ræða.

Hann kvað brotaþola ekki hafa látið í ljós að henni liði illa út af þessu enda hafi hún þekkt slíkan húmor. Þá hafi hún að einhverju leyti tekið þátt í samskiptum af þessu tagi, bæði á Facebook og þeirra á milli. Þá ætti hún til að grípa um brjóstin á sér án þess að vera beðin um það. Ákærði kvað nú hugsanlegt að ekki hafi verið um viðeigandi háttsemi af hans hálfu að ræða en á þessum tíma hafi honum ekki fundist neitt athugavert við þessi samskipti,“ segir í dómi Héraðsdóms Suðurlands.

Að mati dómsins leikur enginn vafi á því að maðurinn olli stúlkunni miska sem honum beri að bæta og var honum gert að greiða henni 600 þúusnd í miskabætur auk þess sem hann var dæmdur í skilorðsbundið sex mánaða fangelsi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert