Ungmenni sluppu vel í umferðaróhappi

Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í Ártúnsbrekku um hálftvöleytið í nótt og ók á vegrið. Ökumaðurinn og fjórir farþegar í bifreiðinni sluppu við meiðsl en allir sem voru í bifreiðinni eru 16 og 17 ára. Foreldrum og barnaverndaryfirvöldum var tilkynnt um málið. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var bifreiðinni ekið af Reykjanesbraut inn á Vesturlandsveg er ökumaðurinn missti stjórn á henni og ók á vegrið. Bifreiðin er mikið skemmd eftir óhappið.

Um níuleytið í gærkvöldi missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Álftanesvegi, ók á vegrið og síðan út af veginum og ofan í skurð. Ökumaðurinn var fluttur á bráðamóttöku Landspítalans með sjúkrabifreið en ekki liggur fyrir hjá lögreglu hversu alvarleg meiðsl hans voru. Bifreiðin flutt af vettvangi með Króki. Vegagerðin kölluð til vegna skemmda á vegriði.

Skömmu eftir miðnætti var tilkynnt um eld í bifreið við Vindakór. Bifreiðin alelda og flutt af vettvangi eftir slökkvilið hafði lokið störfum. Bifreiðin var ekki á skrá þar sem hún hafði verið afskráð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert