Viðurkenndi mistökin strax

Svona var umhorfs við verkstæðið Bernhard í gær.
Svona var umhorfs við verkstæðið Bernhard í gær. mbl.is

Ökumaðurinn trukksins sem rann stjórnlaust í Vatnagörðum í Reykjavík í gær var í áfalli yfir óhappinu og viðurkenndi eigin mistök strax. Hann gleymdi að setja bílinn í handbremsu þegar hann skaust inn í verslun. Milljónatjón varð þegar bíllinn rann mannlaus af stað. 

„Ökumaðurinn gleymdi bara að setja í handbremsu þegar hann lagði bifreiðinni við Holtagarða. Hann labbaði niður í búð þarna niðurfrá og þegar hann kom til baka var trukkurinn horfinn,“ segir Ingvar Grétarsson, rannsóknarfulltrúi hjá Aðstoð og öryggi.

Flutningabifreiðin rakst á bifreiðar, þar á meðal bíl sem var stopp við biðskyldumerki, ók niður brunahana og rakst á endanum á verkstæði í Vatnagörðum. Ingvar segir að aðeins sé um tryggingamál að ræða þar sem ekki hafi orðið slys á fólki. Lögreglan lagði það í hendur Aðstoð og öryggi að ganga frá því. Hann sé búinn að senda skýrslur til tryggingafélaga vegna óhappsins en ljóst sé að tjónið hlaupi á milljónum króna, aðallega vegna þeirra bíla sem trukkurinn rann á. 

„Hann var náttúrlega í áfalli að hafa lent í þessu. Hann var bara miður sín yfir þessu og viðurkenndi alveg sín mistök. Manneskjunni var líka töluvert brugðið sem var í bíl sem var stopp á gatnamótunum við Sægarða að fá trukkinn aftan á sig og snúast fyrir framan hann,“ segir Ingvar en ökumaður bifreiðarinnar sem trukkurinn rann aftan á slapp þó ómeiddur.

Mannlaus trukkur olli miklu tjóni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert