Ráðherra á rétt á öllum upplýsingum

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri. mbl.is/Sigurður Bogi

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, segist hafa sent gögn um lögreglurannsókn á Tony Omos til Gísla Freys Valdórssonar vegna þess að hún hafi litið svo á að hann talaði fyrir hönd ráðuneytisins. Ráðherra ætti, sem æðsti yfirmaður lögreglumála, rétt á öllum gögnum.

Þetta kom fram í viðtali sem RÚV átti við Sigríð Björk í hádegisfréttum. Sigríður Björk sendi Gísla Frey, fyrrverandi aðstoðarmanni innanríkisráðherra, gögn um Tony Omos daginn eftir að hann lak upplýsingum um mál hans til Fréttablaðsins.

„Þegar ég sendi honum [Gísla Frey Valdórssyni] þessi gögn, þá er það samantekt í máli sem verið er að vinna í ráðuneytinu. Innanríkisráðherra er æðst yfirmaður lögreglunnar. Ef ráðuneytið biður um eitthvað þá fær ráðuneytið það sem það biður um,“ sagði Sigríður.

Sigríður sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir því að Gísli Freyr ætti ekki rétt á að fá þessi gögn. „Hann óskaði eftir göngum og við lítum á aðstoðarmann ráðherra sem fulltrúa innanríkisráðuneytisins og fulltrúa ráðherra. Málið var til meðferðar í ráðuneytinu og það voru fleiri en einn að vinna í því í ráðuneytinu. Ég hafði enga ástæðu til að ætla að Gísli væri ekki partur af því teymi. Þannig að þegar ég sendi mínar upplýsingar, þá sendi ég þær á grundvelli 14. gr. laga um stjórnarráð Íslands nr. 115/2011,“ sagði Sigríður.

Í lagagreininni segir orðrétt: „Ráðherra getur krafið stjórnvald, sem heyrir undir yfirstjórn hans, um hverjar þær upplýsingar og skýringar sem honum er þörf á til að sinna yfirstjórnarhlutverki sínu...
Ef nauðsynlegt reynist í þessu sambandi að afhenda ráðherra upplýsingar sem almennar eða sérstakar þagnarskyldureglur taka til eru hann og ráðuneyti hans bundin þagnarskyldu með sama hætti og í þeim reglum greinir.

Sigríður sagði að embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum hefði oft sent innanríkisráðuneytinu greinargerðir um hins ýmsu mál. „Allir í kerfinu gera það.“

„Það vissi enginn á þessum tíma að aðstoðarmaður ráðherra hefði gerst sekur um brot á þagnarskyldu,“ sagði Sigríður. „Við stóðum í þeirri trú að þetta væri eitthvað sem ráðuneytið þyrfti á að halda og það væri verið að vinna í þessu máli í ráðuneytinu, sem var verið að gera.“

Sigríður sagðist eiga átján ára flekklausan feril í embætti. „Þið eruð að draga mig niður og ég hef ekkert gert nema að senda umbeðin gögn til nýs ráðherra eða ráðuneytis sem er minn yfirmaður,“ sagði Sigríður í samtali við fréttamann RÚV.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert