„Alvarlegt ef skólar iðka þetta“

Undanþágur frá því að þreyta samræmd könnunarpróf í 4., 7. …
Undanþágur frá því að þreyta samræmd könnunarpróf í 4., 7. og 10. bekk eru heimilar samkvæmt lögum um grunnskóla. mbl.is/Rósa Braga

„Það er þvert ofan í allar reglur að kennarar séu að hringja í foreldra nemenda og óska eftir því að þeir komi ekki í prófin,“ segir Arnór Guðmundsson, forstöðumaður hjá Námsmatsstofnun.

Mbl.is fjallaði um það í fyrradag þegar kennarar sonar Freyju Búadóttur ráðlögðu henni að hringja á prófadegi í samræmdu prófunum í 4. bekk ogtilkynna að hann væri veikur  svo hann þyrfti ekki að taka prófin. Kennarar sögðu það slæmt fyrir drenginn, sem er með ADHD og lesblindu, að mæta í prófin þar sem „hann myndi upplifa sig heimskan“.

Arnór segist hafa heyrt af svipuðum dæmum, og séu þau litin mjög alvarlegum augum hjá Námsmatsstofnun. „Það er mjög alvarlegt ef þetta er iðkað og þarf að skoða það,“ segir hann.

Erlendum nemendum t.d. veittar undanþágur

Undanþágur frá því að þreyta samræmd könnunarpróf í 4., 7. og 10. bekk eru heimilar samkvæmt lögum um grunnskóla. Samkvæmt lögunum er skólastjórum heimilt, ef gildar ástæður mæla með því og ef samþykki foreldra liggur fyrir, að veita nemendum undanþágu frá því að þreyta samræmd könnunarpróf.

Nemendur með annað móðurmál en íslensku geta fengið undanþágu frá því að þreyta prófin í íslensku. Jafnframt er heimilt að veita þessum nemendum undanþágu frá því að þreyta prófin í stærðfræði, hafi þeir dvalið skemur í landinu en eitt ár og undanþágu frá prófi í ensku hafi þeir dvalið skemur í landinu en tvö ár.

Nemendur í sérskólum, sérdeildum og aðrir þeir nemendur á skyldunámsaldri sem taldir eru víkja svo frá almennum þroska að þeim henti ekki samræmd könnunarpróf geta einnig fengið undanþágu. Þá geta nemendur sem orðið hafa fyrir líkamlegu eða andlegu áfalli sem gerir þeim ókleift að þreyta prófin fengið undanþágu.

Margar undanþágur geta haft áhrif á niðurstöður

Arnór segir það mismunandi eftir svæðum og skólum hversu margar undanþágur er farið fram á. „Hver nákvæmlega ástæðan er fyrir því höfum við ekki kannað en við munum gera það,“ segir hann. 

Hann segir það geta haft áhrif á niðurstöðurnar ef margir eru að fá undanþágur frá prófunum. „Ef skólar eru að nota samræmdu könnunarprófin sem mælikvarða á sinn árangur og vilja koma vel út þá getur þetta haft áhrif á niðurstöðurnar.“

Þá segir hann prófin fyrst og fremst gerð til að þjóna nemendum og veita þeim upplýsingar um sína stöðu gagnvart öðrum nemendum. „Kennarar eiga að taka niðurstöðurnar og vinna út frá þeim og efla nemendurna.“

Bæta ekki útkomu sína með því að láta nemendur sitja heima

Arnór segir nýtt fyrirkomulag hafa verið innleitt í samræmdum könnunarprófum hjá 10. bekk, og nú sé einkunnakvarðinn í bókstöfum í stað tölustafa. „Nýi einkunnakvarðinn er A, B, C og D og við gefum nemendum sjálfkrafa D sem mæta ekki í prófin. Svo það eru ákveðin skilaboð í því til skólanna. Þeir eru ekki að bæta sína útkomu með því að láta nemendur sitja heima.“

Kynningafundur um framtíð samræmdra könnunarprófa verður haldinn á mánudaginn næstkomandi og segir Arnór hugmyndir um þróun prófa verða kynntar þar. „Við viljum þróa prófin þannig að þau verði meira einstaklingsmiðuð svo það verði ekki erfitt fyrir nemendur að taka þau. Við sjáum það þannig fyrir okkur í framtíðinni.“

Hann segir markmiðið það að aðlaga próf nemendum svo þeir fái próf við sitt hæfi út frá getu sinni og hæfni. Þá verði prófin tekin rafrænt.

Frétt mbl.is: „Hann mun upplifa sig heimskan“

Skólar bæta ekki útkomu sína í samræmdum könnunarprófum með því …
Skólar bæta ekki útkomu sína í samræmdum könnunarprófum með því að láta nemendur sitja heima. mbl.is/Eyþór Árnason
Nemendur sem taldir eru víkja svo frá almennum þroska að …
Nemendur sem taldir eru víkja svo frá almennum þroska að þeim henti ekki samræmd könnunarpróf geta fengið undanþágu. Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert