Lýsa upp stræti Reykjavíkur

Í verki sínu leitast Ragnheiður Harpa Leifsdóttir við að senda …
Í verki sínu leitast Ragnheiður Harpa Leifsdóttir við að senda ljós og þar með von út í heiminn. mbl.is/Eggert

Listakonan Ragnheiður Harpa Leifsdóttir mun í samstarfi við alþjóðasamtökin UN Women standa fyrir gjörningi á Klambratúni nk. þriðjudag klukkan 17.15. Samtökin standa nú að alþjóðlega verkefninu „Örugg borg“ og er markmið þess að skapa konum og börnum öruggt líf án ótta við ofbeldi með því að lýsa upp dimma garða og stræti og gera borgina þannig að öruggari stað. Reykjavíkurborg er meðal 18 borga sem taka þátt í herferðinni og vonast samtökin til þess að herferðin leiði til aukins öryggis kvenna um allan heim. Ragnheiður Harpa segir alla geta tengt við herferðina og viðurkennir að hún verði oft og tíðum smeyk við að ganga yfir Klambratún að kvöldi til.

Falleg stund í myrkrinu

Verk Ragnheiðar Hörpu ber yfirskriftina „Skínalda“ en þar vinnur hún með fólk, hljóð og ljós. Innblástur að verkinu fékk hún af því að skoða veðurkort og hvernig ein öflug vindhviða getur haft áhrif á hviður hinum megin á hnettinum. Notast hún við sömu hugmynd í verki sínu. „Þetta snýst um hvernig ein kveikja getur orðið að stórri öldu. Okkur fannst hugmyndin um að búa til spíral hér sem svo sendir ljós út í heiminn rosalega falleg,“ segir Ragnheiður Harpa. Hvetur hún áhugasama til að mæta á Klambratún og taka þátt í verkinu. „Áhorfendur verða þátttakendur í verkinu og koma til með að hjálpa við að kveikja ljós, t.d. með símum sínum eða með vasaljósum og senda það út í heim við söng kóra.“ Gjörningurinn verður tekinn upp á myndband af framleiðslufyrirtækinu Tjarnargötunni og gefinn alþjóðlegu samtökunum að gjöf. „Hver veit nema fleiri borgir langi svo að leika þetta eftir,“ segir Ragnheiður Harpa.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mun skrifa undir skjal á staðnum sem staðfestir þátttöku borgarinnar í verkefni samtakanna, auk þess sem Unnur Ösp Stefánsdóttir, leikkona og verndari UN Women á Íslandi, og Ragnheiður Harpa flytja erindi. Í kjölfarið mun Reykjavíkurborg svo bjóða upp á kakó.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert