Skosk rjúpa eða kengúra í jólamatinn?

Í fyrsta sinn er innflutt rjúpa á boðstólnum í Bónus.
Í fyrsta sinn er innflutt rjúpa á boðstólnum í Bónus. Skjáskot af vef Bónus

Bónus hefur nú hafið sölu á rjúpu frá Skotlandi og er þetta í fyrsta sinn sem innflutt rjúpa er á boðstólum í matvöruversluninni.

Að sögn Guðmundar Marteinssonar, framkvæmdastjóra Bónuss, er rjúpan „tilbúin í pottinn“ og kostar aðeins 998 krónur. Einnig býður verslunin nú upp á rjúpnabringur, en fjögur stykki í pakka kosta 1.298 krónur.

Eftirspurnin eftir rjúpu hefur verið mikil undanfarin ár og segir Einar Þórisson hjá Aðföngum að um sex þúsund rjúpur hafi verið fluttar inn fyrir þessi jól.

Gefið var leyfi fyrir innflutningi á rjúpu þegar stofninn hrundi fyrir nokkrum árum, en ekki má selja íslenska rjúpu. Skyttur geta því aðeins veitt til eigin neyslu.

Rjúpna­veiðitíma­bil­inu lauk á sunnu­dag­inn en alls mátti veiða í 12 daga í ár. Fyrstu þrjár helgarn­ar veidd­ist lítið enda var veðrið afar óhag­stætt. Um síðustu helgi var veðrið skap­legra og veiðin góð.

Fram­boðið af inn­fluttri villi­bráð er mjög gott fyr­ir jól­in en meðal hrá­efn­is sem Sælkeradreifing flytur inn má nefna krón­hjartarfile og -lund­ir, akurhænu, fasana, gráönd og grágæs.

Þá munu Hagkaup einnig bjóða upp á ýmsar sérstakar vörur fyrir jólin og má þar nefna villisvín, hérahrygg, dádýrasteikur og kengúrusteikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert