Vel sást til eldgossins í morgun

Frá eldgosinu í Holuhrauni.
Frá eldgosinu í Holuhrauni. mbl.is/RAX

Vel sást til eldgossins í Holuhrauni í morgun. Veðurskilyrði til að sjá gosið hafa verið misjöfn síðustu viku, en þau eru góð núna. Enn er mikill kraftur í gosinu, en það hefur staðið í bráðum þrjá mánuði.

Jarðvísindastofnun mældi stærð hraunsins í byrjun síðustu viku og var það þá um 72 ferkílómetrar. Hraunflæðið úr hrauntjörninni er heldur sveiflukenndara nú en í byrjun gossins. Hraunflæðið myndar álmu til austsuðausturs. Frá miðjum september hefur hægt dregið úr framleiðni gossins.

Þrír möguleikar eru áfram taldir líklegastir um framvindu eldgossins. Í fyrsta lagi að gosið í Holuhrauni fjari út og öskjusig í Bárðarbungu hætti. Í öðru lagi að stórt öskjusig verði í Bárðarbungu, en þá er líklegt að gos í Holuhrauni verði langvinnt eða vaxi. Mögulegt er að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli. Einnig er mögulegt að sprungur opnist annars staðar undir jöklinum.
Í þriðja lagi að stórt öskjusig verði í Bárðarbungu og gos í öskjubroti. Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi. Öskufall gæti þá orðið nokkurt.

Vefmyndavél Mílu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert