Vill rýma Alþingishúsið

Vagna Sólveig Vagnsdóttir, alþýðulistakona á Þingeyri.
Vagna Sólveig Vagnsdóttir, alþýðulistakona á Þingeyri. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Vagna Sólveig Vagnsdóttir, alþýðulistakona á Þingeyri, vill láta rýma Alþingishúsið og flytja þingheim í annað hús. „Ég veit ekki hvað veldur því en Alþingishúsið er sýkt. Þar er eitthvað á reiki. Það sést best á því að menn geta ekki breytt sínum hugsunarhætti inni í þessu húsi,“ segir hún. 

„Hefurðu veitt því athygli hvað fólk breytist þegar það tekur sæti á Alþingi? Við það eitt að koma inn í Alþingishúsið. Það er eins og allir setji upp grímu og byrji að tala öðruvísi en þeir gerðu áður en þeir komu þangað inn. Fólk er stífara, þvingaðra og ekki það sjálft. Það þarf enginn að segja mér að þingmenn hegði sér svona utan þingsalarins,“ heldur hún áfram.

Margir útvarpshlustendur kannast við Vögnu Sólveigu en hún hefur hringt í Næturvaktina á Rás 2 um hverja helgi í meira en tvo áratugi og það var fyrst og fremst baráttu hennar að þakka að þátturinn var reistur upp frá dauðum síðastliðið sumar.

„Það er rólegt hjá mér á daginn hérna fyrir vestan, ég hef lítið annað fyrir stafni en að prjóna og þá er ágætt að horfa á útsendingar frá Alþingi. Ég næ reyndar ekki Alþingisrásinni en get horft á þingfundi þangað til auglýst dagskrá hefst í Ríkissjónvarpinu. Og ég sé að eitthvað amar að. Ég þarf eiginlega að fara að drífa mig suður á þingpalla, ég hef aldrei komið í Alþingishúsið. Ég myndi skynja þetta undir eins. Ég finn um leið og ég kem í hús hvort andinn þar er góður eða illur.“

Vagna Sólveig viðurkennir að Alþingishúsið sé fallegt hús með mikla sögu en alþingismenn verði eigi að síður að fá vinnufrið. „Það hlýtur að mega finna annað hús, eða reisa nýtt. Það myndi margborga sig, stærstu ákvarðanir sem varða þjóðina eru nú einu sinni teknar á Alþingi og þingheimur verður að geta hugsað skýrt. Það er ekki lítið í húfi.“

Í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins ræðir Vagna Sólveig ítarlega um skyggnigáfu, núning sinn við aðra heima, endurholdgun og líf eftir dauðann.

Alþingishúsið er sýkt, að sögn Vögnu Sólveigar.
Alþingishúsið er sýkt, að sögn Vögnu Sólveigar. Ómar Óskarsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert