Skarst mikið í andliti

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók fimm manns í gærkvöldi og í nótt í tengslum við ýmis mál. Þar á meðal mann sem var í mjög annarlegu ástandi á Miklubraut á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Sá er grunaður um eignaspjöll á bifreiðum.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að talið sé að maðurinn hafi orðið fyrir bifreið á Miklubraut en ekki voru sjánlegir áverkar á honum. Maðurinn var vistaður i fangageymslu þar til rennur af honum og hægt verður að ræða við hann. 

Rétt fyrir klukkan tvö í nótt var tilkynnt um likamsárás í Skeifunni í Reykjavík. Þar fékk maður glerglas í andlitið. Árásarmenn voru farnir af vettvangi er lögregla kom. Maðurinn fluttur á slysadeild til aðhlynningar en hann var mikið skorinn í andliti. Málið er í rannsókn.

Á öðrum tímanum í nótt var maður í annarlegu ástandi handtekinn við veitingahús í Grafarholti. Maðurinn hafði verið til vandræða og var í vörslu dyravarða er lögreglan kom. Maðurinn vistaður í fangageymslu meðan ástand hans lagast.

Um kl. þrjú í nótt var maður í annarlegu ástandi handtekinn í Höfðahverfi í Reykjavík grunaður um nytjastuld bifreiðar, akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og að aka sviptur ökuréttindum. Maðurinn var vistaður í fangageymslu þar til hægt verður að ræða við hann.

Kl. 02:33 var maður handtekinn í Lækjargötu grunaður um líkamsárás. Maðurinn var ekki viðræðuhæfur sökum ástands. Hann var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls.

Skömmu seinna var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi við veitingahús í miðborg Reykjavíkur. Maðurinn var vistaður í fangageymslu meðan ástand hans lagast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert