Ísland valið uppáhaldsáfangastaður

Ingvar Örn Ingvarsson tekur á móti verðlaununum.
Ingvar Örn Ingvarsson tekur á móti verðlaununum.

Íslandsstofa hlaut verðlaun á hátíð The Guardian og Observer í Agadir, Marokkó, um helgina. Fulltrúi Íslandsstofu, Ingvar Örn Ingvarsson, tók á móti verðlaununum en verðlaunin eru veitt árlega í nokkrum flokkum á grunni lesendakönnunar dagblaðsins The Guardian til þeirra aðila er vinna að markaðssetningu áfangastaða. Íslandsstofa hlaut sambærileg verðlaun frá The Guardian síðast árið 2012.

Um 90 gestir sóttu hátíð The Guardian og Observer heim þetta árið og var staðarvalið þetta skiptið Agadir í Marokkó. Verðlaunanna er beðið með eftirvæntingu ár hvert.

Verðlaunin afhenti breska sjónvarps- og ævintýrakonan Helen Skelton en hún hefur meðal annars unnið sem kynnir hjá BBC-sjónvarpsþáttunum Blue Peter auk þess sem hún var fyrsta manneskjan til að hjóla á suðurpólinn. Helen lét þau orð falla við verðlaunaafhendinguna að verðlaunalandið Ísland væri í miklu uppáhaldi meðal lesenda The Guardian og Observer og mikið kvikmyndaland sem síðast hefði sést í vinsælum kvikmyndum á borð við The Secret Life of Walter Mitty, Prometheus og Interstellar.

Gríðarlegur áhugi er á Íslandi þessi misserin í Bretlandi og höfðu gestir verðlaunaafhendingarinnar orð á því að fáir áfangastaðir væru eins aðgengilegir, spennandi og ævintýralegir og Ísland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert