Verðlaunaði Ólaf og íslensku þjóðina

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, veitti verðlaunum viðtöku á föstudag.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, veitti verðlaunum viðtöku á föstudag.

Cornell-háskólinn í Bandaríkjunum hefur veitt Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, og íslensku þjóðinni heiðursverðlaun fyrir forystu á sviði endurnýjanlegrar orku og sjálfbærni. Þetta er í fyrsta sinn sem verðlaunin eru veitt og fór athöfnin fram í Íþöku í New York-ríki á föstudag.

Verðlaunin, sem bera heitið The Atkinson Center Award for Global Leadership in Sustainable Development, eru tengd sérstakri stofnun við Cornell-háskóla, sem einbeitir sér að eflingu endurnýjanlegar orku, umhverfismálum og sjálfbærni. Stofnunin hefur starfað frá árinu 2008 en Cornell hefur lengi verið meðal fremstu háskóla í Bandaríkjunum, að því er segir í tilkynningu frá skrifstofu forsetans.

„Í ávarpi sem forseti Íslands flutti við þetta tækifæri þakkaði hann þann heiður sem sér og íslensku þjóðinni væri sýndur með þessum verðlaunum. Fyrr um daginn hafði forseti flutt fyrirlestur við háskólann um hagkerfi hreinnar orku, vegferð Íslendinga frá nýtingu olíu og kola til fjölþætts atvinnulífs sem byggðist á jarðhita og vatnsafli. Jafnframt gerði forseti grein fyrir framlagi íslenskra vísindamanna og sérfræðinga, orkufyrirtækja og verkfræðifyrirtækja til nýtingar jarðhita í fjarlægum heimshlutum, einkum í Asíu og Afríku. Umbylting í orkukerfum landa heims væri forsenda árangurs í baráttunni gegn yfirvofandi hættu á ógnvekjandi loftslagsbreytingum. Fyrirlestur forseta verður hægt að nálgast á vef Cornell-háskóla á næstu dögum,“ segir í tilkynningunni.

„Forseti Íslands hefur jafnframt í heimsókninni til Cornell átt fundi með forystumönnum ýmissa deilda háskólans, einkum á sviði orkumála, verkfræði og jarðvísinda. Á þeim var m.a. rætt um frekara samstarf Íslands og Cornell um jarðhitarannsóknir og jarðhitanýtingu. Prófessor Jefferson W. Tester, einn fremsti sérfræðingur Bandaríkjanna á sviði jarðhita, skipulagði fundina en í þeim tóku einnig þátt m.a. Þorsteinn I. Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, og Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri HS Orku, sem komu til Cornell í tilefni af verðlaunaveitingunni.

Þá átti forseti einnig fund með íslenskum stúdentum sem stunda nám við Cornell-háskóla og öðrum stúdentum við skólann sem einkum leggja stund á rannsóknir á sviði jarðhitanýtingar, kolefnisbindingar og hreinnar orku. Ýmsir þeirra höfðu heimsótt Ísland í sérstökum námsferðum,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert