Faraldurinn er hjá eldri körlum

Sárasótt er greind með blóðprufu.
Sárasótt er greind með blóðprufu.

Óvenju margir hafa greinst með sárasótt það sem af er árinu. 17 karlmenn hafa greinst í ár samanborið við tvo til fimm einstaklinga á fyrri árum.  Talið er að 15 af þeim 17 karlmönnum sem greindir hafa verið hafi smitast við kynmök með karlmönnum og eru flestir karlmannanna nokkuð eldri en sá hópur sem algengast er að smitist af kynsjúkdómum.

„Klamydían er algengust í fólki á aldrinum 19 til 25 en þeir sem eru að sýkjast af sárasótt í þetta skipti virðast mest vera eldri karlar, fæddir í kringum 1960,“ segir Guðrún Sigmundsdóttir, yfirlæknir hjá sóttvarnarsviði landlæknisembættisins. 

Eru ekki að „hengja hommana“

Guðrún segir sýkingahrinur af völdum sárasóttar hafa verið vel þekktar í öðrum löndum síðastliðinn áratug en þær hafa einna helst komið upp meðal karlmanna sem stunda kynlíf með öðrum körlum. 

„Þegar HIV veiran kom fram á níunda áratugnum dró úr kynsjúkdómum hjá þessum hópi af því að fólk passaði sig. Um seinni part tíunda áratugarins kom fram meðferð sem gerir fólki kleift að lifa með HIV og dró úr veirumagni sem minnkar smitlíkur. Þá fór fólk að verða kærulausara á ný.“

Guðrún segir lækna hafa áhyggjur af ástandinu nú. Hún segir mikilvægt að sam- og tvíkynhneigðir karlmenn séu meðvitaðir um aukningu á sárasóttartilfellum í sínum hópi og geri viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þeir smitist.  „Við erum ekki að „hengja hommana“ heldur erum við einmitt með þeirra velferð í huga,“ ítrekar Guðrún.

„Það er mikilvægt að hvetja fólk að fara til læknis þegar grunur um kynsjúkdóm kemur upp svo það fái greiningu og meðferð. Þá er einnig unnið mikið í rakningu smitleiða, sem felst í því að ná í þá sem geta hugsanlega verið smitaðir. Það er mikilvægt að fylgja þessu eftir og bregðast við eftir þörfum, svo sýkingunum fækki.“

Sár en ekki sársauki

Einkenni sárasóttar koma yfirleitt fram um þremur vikum eftir smit hefur átt sér stað en þó geta liðið um 90 dagar þar til að einkenni koma fram. Þá kemur fram sár á smitstað, veri það á kynfærum, í munni eða við endaþarm. Guðrún segir sárin yfirleitt laus við eymsli eða sársauka og að þegar þau hverfi geti sjúkdómurinn þróast yfir í annars stigs sárasótt.

„Þá er þetta komið út í blóðið og líkamann og þá fær maður útbrot. Svo getur bakterían borist í mænuvökvan og það þarf að athuga augu sjúklinga. Á þessum tímapunkti er ónæmiskerfið komið á fulla ferð og það geta komið upp flækjur þar sem mótefnin bindast smitefninu og þá geta myndast einkenni frá nýrum að auki,“ segir Guðrún.

Þegar annað stig sárasóttarinnar er gengið yfir segir Guðrún að svokölluð leynd sárasótt taki við þar sem sjúklingurinn er einkennalaus en ber hana í líkamanum. „Maður getur verið með leynda sárasótt nokkuð lengi og sumir fá ekki frekari einkenni en aðrir geta farið yfir í þriðja stigs sárasótt sem er þá frá taugakerfi og æðakerfinu, sem er alvarlegur sjúkdómur og getur leitt til dauða.“

Guðrún tekur fram að þriðja stigs sárasótt sjáist sjaldan hér á landi og að oftast takist að meðhöndla sjúkdóminn áður en hann kemst á það stig. Hún segir meðferð við sjúkdómnum felast í pensilíngjöf, ýmist í töfluformi eða í vöðva en að smokkurinn sé besta vörnin gegn sárasótt. 

„Ef maður smitast af sárasótt getur það leitt til annarra sýkinga. Sárasótt og álíka kynsjúkdómar gera leiðina greiðfærari fyrir HIV veiruna þar sem þá er slímhúðin ekki jafn heil og þegar maður er ekki með kynsjúkdóm,“ minnir hún á.

Margir gætu enn verið ógreindir

Engin kona hefur greinst með sárasótt það sem af er ári en tveir þeirra karla sem greinst hafa höfðu þó aðeins stundað kynlíf með konum. 

„Það er alltaf þannig með alla smitsjúkdóma að við fáum aðeins hluta sjúklingana inn á okkar borð. Konur eru t.a.m. oft einkennalausar þegar kemur að lekanda eða klamydíu. Þó svo að sárin sem einkenna sárasótt komi alltaf fram er það ekki sársaukafullt svo það er vel hugsanlegt að enn séu margir ógreindir,“ segir Guðrún.

Hún segir sjúkdóminn greindan með mótefnamælingum og að ekki séu tekin sýni úr sárum á Íslandi. „Við höfum verið með svo fá tilfelli að við höfum látið mótefnamælingarnar duga og þær hafa þjónað okkur ágætlega. Svo getum við velt því fyrir okkur núna hvort við eigum að bæta við möguleikum á greiningum.

Tengdar fréttir:
Sárasóttartilfellum meðal eldri karlmanna fer ört fjölgandi

Á miðöldum var reynt að lækna sárasótt með kvikasilfri.
Á miðöldum var reynt að lækna sárasótt með kvikasilfri.
Smokkurinn er mikilvæg vörn gegn hverskonar kynsjúkdómum.
Smokkurinn er mikilvæg vörn gegn hverskonar kynsjúkdómum. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert