Hjartaensím hlaupara hækka

Frá Víðavangshlaupi ÍR.
Frá Víðavangshlaupi ÍR. Ljósmynd/Torfi Leifsson

„Það er mjög mikilvægt að vita þegar fólk kemur inn á bráðavakt og hefur verið í einhverri áreynslu og mælist með hækkuð hjartaensím, að þá er það ekki endilega vísbending um að menn séu að fá hjartaáfall. Eflaust er um að ræða eðlilegt fyrirbæri,“ segir Björn Magnússon, yfirlæknir sjúkrasviðs á Selfossi, en hann rannsakaði hækkanir á vöðva- og hjartaensímum við aðstæður á borð við íslensk fjallahlaup í samstarfi við Erlu Björnsdóttur, Önnu Þóru Árnadóttur og Ragnheiði Þórarinsdóttur. Rannsóknin var kynnt, auk fjölda annarra, á lyflækningaþingi Félags íslenskra lyflækna sem fram fór í Hörpu um helgina.

Mikið álag á hjartað

„Vöðvaensím og hjartaensím, sem oft eru notuð til viðmiðunar við hjartaáföll, hækka eftir hlaupin hjá þeim sem hlaupa maraþonhlaup. Rannsóknir benda þó til þess að þetta sé ekki hættulegt ástand heldur sé hækkunin tímabundin. Hækkunin á hjartaensímunum kemur sennilega til vegna leka, sem verður við áreynslu, úr hjartafrumunum,“ segir hann.

Björn ítrekar að hlaup séu ekki hættuleg og að líklegast sé um góðkynja fyrirbæri að ræða.

„Það er hinsvegar rétt að víðavangshlaup valda verulegum hækkunum á vöðvaensímum í blóði, sérstaklega fjallahlaup. Hjartaensímin hækka verulega eftir hlaupin miðað við það sem var fyrir hlaup. Það þýðir þó ekki að hlaupararnir séu að fá hjartaáfall, þeir jafna sig mjög fljótt. Þetta gengur yfir á einum eða tveimur sólarhringum. Það sama á við um vöðvaskemmdirnar, þær ganga yfir á 24 til 48 tímum,“ segir hann.

„Ég get ekki fullyrt að hlaup auki ekki líkur á hjartaáfalli, en ég get hinsvegar fullyrt það að hlaupin auka líkur á að menn fái hækkun á hjartaensímum, sem er oft notað sem vísbending um líkur á hjartaáfalli. Í þessum tilfellum leiðir hækkunin þó alls ekkert endilega til hjartaáfalla. Það er mikilvægt að fólk átti sig á því að þetta er mikið álag á hjartað en þetta er ekki endilega skemmd á hjartavöðvafrumunum eins og verður í hjartaáfalli. Hlauparar jafna sig alla jafna,“ segir Björn í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert