Í gæsluvarðhald vegna hnífsstungu

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Tveir menn hafa verið úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald í tengslum við hnífsstungu í heimahúsi á Hverfisgötu í gærkvöldi. Tveimur öðrum mönnum sem handteknir voru með þeim var sleppt í dag en lýst er eftir þeim fimmta.

Að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, voru mennirnir tveir úrskurðaðir í gæsluvarðhald til mánudagsins 8. desember í kvöld. Ekki sé hægt að greina nánar frá málsatvikum sem séu enn óljós.

Ábendingar hafa komið fram um fimmta manninn sem lýst var eftir, hinn 21 árs gamla Arkadiusz Lech Ustaszewski, sem Friðrik Smári segir að lögreglan vilji ná tali af í tengslum við málið. Hann hafi þó enn ekki fundist.

Maðurinn sem var stunginn liggur á gjörgæsludeild Landspítalans í lífshættu og er honum haldið sofandi.

Tveimur mannanna sleppt 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert