30% matvæla fer í ruslið

Litríkt er það, ruslið á Álfsnesi þar sem úrgangur er …
Litríkt er það, ruslið á Álfsnesi þar sem úrgangur er urðaður. Stórvirkar vinnuvélar moka vandlega yfir herlegheitin svo yfirborðið verði slétt og fellt. mbl.is/Rax

Innlendir sérfræðingar og þrír erlendir fyrirlesarar fluttu erindi um aðferðir í baráttunni gegn matarsóun á málþingi í Norræna húsinu í dag. Málþingið var á vegum Landverndar, Kvenfélagasambands Íslands og Vakanda og segir Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir hjá Landvernd, málþingið hafa verið fyrsta skrefið í að hefja umræðu um matarsóun fyrir alvöru hér á landi.

„Hér á Íslandi eru ekki til neinar tölur um matarsóun, það hefur aldrei verið ráðist í rannsóknir á þessu,“ segir Sigríður. „Ef við miðum við Norðurlöndin þá má gera ráð fyrir því að 30% af því sem við kaupum fari beint í ruslið.“ 

Sigríður segir að hingað til hafi skort samtal á Íslandi um matarsóun. „Við vorum með svo marga ólíka aðila á málþinginu, fólk úr nýsköpunargeiranum, heildsala, smásala, hið opinbera og fólk frá borginni og matvælastofnun. Það að við náðum öllu þessu fólki saman gerir okkur viss um að það sé að fara að skila einhverjum árangri. Þegar á hólminn er komið þá hefur ekki verið nein umræða en vonandi var þetta fyrsta skrefið.“

Vilja gera íslenska rannsókn

Sigríður tekur fram að hér sé ekki verið að mæla skrælt kartöfluhýði eða appelsínubörk heldur mat sem sjálfsagt væri að bera á borð fyrir fólk. Hún segir Landsvernd hafa sótt um styrk til að geta farið í grunnrannsókn á matarsóun í Reykjavík.

„Ef við fáum styrk til þess viljum við ráðast í stærri rannsókn og mæla matarsóun á Íslandi því það gengur auðvitað ekki upp að ætla að taka á vandamáli sem enginn veit hversu umfangsmikið er,“ segir Sigríður. „Við köllum eftir því að stjórnvöld hlusti á okkur og veiti styrk svo hægt sé að fara í mælingar á þessu.“

Matarsóun er umhverfismál

Sigríður segir flesta eflaust kannast við að fara svangir út í búð og kaupa meira en þeim vantaði eða skipuleggja búðarferðir illa. „Það endar á því að það fer allskonar óþarfi í körfuna og maður kemur kannski heim með eitthvað sem maður átti tvennt af fyrir,“segir hún.

Sigríður telur ljóst að Íslendingar hljóti að vilja vita hversu mikið af mat fer til spillis dags daglega enda sé raunin sú að flestir hendi mun meira magni af matvöru en þeir gera sér grein fyrir. Hún segir matarsóun hafa mikil áhrif á umhverfið og að þess vegna sé málefnið sérlega hugleikið Landvernd.

 „Þú ert ekki bara að henda mat, þú ert að henda auðlindum. Það er búið að eyða bæði landsvæði, orku, vatni, oft er maturinn búinn að ferðast langar vegalengdir og það gerir þetta að umhverfislegu vandamáli. Þetta er líka félagslegt vandamál því að á meðan að margir svelta er fullt af mat hent og víða erlendis er þrælavinna í gangi við að búa til matinn okkar til að við getum fengið hann sem ódýrastan. Í þriðja lagi er vandamálið fjárhagslegt því við erum að henda því sem við erum búin að kaupa og það snertir að sjálfsögðu budduna okkar.“

mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert