Ákvörðun um aflífun felld úr gildi

Þýskur fjárhundur.
Þýskur fjárhundur.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 13. mars 2013 um að aflífa skuli hundinn Funiu. Það væri kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að þann dag var Funia aflífuð og hræið brennt.

Hinn 13. mars 2013 barst lögreglunni á Suðurnesjum tilkynning frá leikskóla í Reykjanesbæ þess efnis að þar væri þýskur fjárhundur laus. Hundurinn hefði verið ógnandi og því hefði leikskólabörnum verið haldið innandyra. Lögreglan á Suðurnesjum tilkynnti málið til heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Við árangurslausa tilraun til þess að koma ól á hundinn var eftirlitsmaðurinn bitinn í hendi og hlaut vegna þess aðhlynningu á heilbrigðisstofnun Suðurnesja þann sama dag.

Frekari tilraunir fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins til að fanga hundinn mistókust og mun í framhaldi hafa verið ákveðið að stugga við hundinum í þeim tilgangi að koma honum heim til sín. Þar náði kærandi síðan að koma hálsól og múl á hundinn og var hann í kjölfarið tekinn í vörslu heilbrigðiseftirlitsins.

Ekið var með hundinn á hundahótel en þegar þangað var komið ákvað framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins að ekki væri rétt að setja hundinn í geymslu heldur bæri að aflífa dýrið. Var það gert og hræið brennt.

Haldið hverfi sínu í gíslingu

Eigandi Funiu sætti sig ekki við þessi málalok enda hafi ranglega verið staðið að aflífuninni. Ákvörðunin hafi verið íþyngjandi geðþóttaákvörðun sem tekin hafi verið í skyndi. Hafi ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið virt að vettugi, og þá sérstaklega rannsóknarregla 10. gr., meðalhófsregla 12. gr. og regla 13. gr. um andmælarétt.

Þessu mótmælti heilbrigðiseftirlitið. Hundurinn hafi verið stórhættulegur umhverfi sínu og lengi haldið hverfi sínu í gíslingu með lausagöngu og ógnandi atferli. Nægar upplýsingar hafi legið að baki stjórnvaldsákvörðuninni. Ákvörðun um aflífun hafi verið tekin með hagsmuni íbúa og þá sérstaklega barna í huga.

Verulegir annmarkar á meðferð málsins

Úrskurðarnefndin tók undir með eiganda Funiu. Brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, meðalhófs hafi ekki verið gætt og andmælaréttur ekki veittur. Því hafi lagastoð skort fyrir fyrirvaralausri aflífun hundsins og verulegir annmarkar verið á meðferð málsins.

Tekið er fram í úrskurðinum að nefndin geti einungis tekið kröfu eigandans um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar til úrlausnar enda falli það utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar að að fjalla um bótakröfu hans. „Ljóst er að umræddur hundur hefur nú þegar verið aflífaður og hræi hans eytt. Úrskurðarnefndin telur engu að síður, með hliðsjón af bótakröfu kærenda og eins og atvikum er hér háttað, að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert