Frjó útfærsla svæða í Úlfarsárdal

Útlitsmynd úr vinniningstillögu VA arkitekta, Landmótunar og Eflu verkfræðistofu.
Útlitsmynd úr vinniningstillögu VA arkitekta, Landmótunar og Eflu verkfræðistofu. Af vef Reykjavíkurborgar

Hópur frá VA arkitektum, Landmótun og Eflu verkfræðistofu áttu vinningstillöguna í hönnunarsamkeppni Reykjavíkurborgar vegna Úlfarsárdals. Í umsögn dómnefndar segir að styrkur tillögunnar sé frjó útfærsla útivistarsvæða og innirýma og innbyrðis tengsl þeirra.

Úrslit í hönnunarsamkeppni um samþættan leik- og grunnskóla með aðstöðu fyrir frístunda- og félagsstarf, menningarmiðstöð og almenningsbókasafn, sundlaug og íþróttahús í Úlfarsárdal auk íbúðabyggðar voru kynnt í Ráðhúsi Reykjavíkur síðdegis í dag. Ólöf Örvarsdóttir formaður dómnefndar kynnti niðurstöðu hennar og opnaði sýningu sem verður í Ráðhúsinu til 3. desember.

Í umsögn dómnefndarinnar segir ennfremur að vel hafi tekist að skapa einstakt mannvirki sem setur mikinn svip á borgarhlutann og gerir hann aðlaðandi og eftirsóknarverðan í borginni án þess að skyggja á útsýnið frá íbúðarhúsunum yfir dalinn.  

24 tillögur teknar til umfjöllunar

Í frétt á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að undirbúningshópur, sem borgarstjóri skipaði í ársbyrjun 2013 til að undirbúa hönnunarsamkeppni og tryggja samráð við hagsmunaaðila, hafi lagt til í skýrslu sinni frá júní 2013 að farið yrði í opna tveggja þrepa samkeppni. Á fyrra þrepi yrði lögð áhersla á staðsetningu og heildaryfirbragð, umferð, tengingar við nánasta umhverfi, dalinn og íbúðabyggð. Á seinna þrepi yrði lögð áhersla á nánari útfærslu á ofangreindum atriðum, starfseininganna sjálfra og innra skipulag þeirra.

Áætluð heildarstærð mannvirkjanna var um 15.500 fermetrar, sem skiptist þannig að aðkoma að mannvirkjunum átti að vera um um 400 fermetrar, samþættur leik- og grunnskóli með aðstöðu fyrir frístunda- og félagsstarf um 6.800 fermetrar, bókasafn og menningarmiðstöð um 1.300 fermetrar og sundlaug um 1.400 fermetrar. Íþróttahús Fram var áætlað um 5.600 fermetrar.

Umfang verksins er eins og sjá má af þessum tölum mikið og var hönnunin opin á Evrópska efnahagssvæðinu. Alls voru 24 tillögur teknar til umfjöllunar hjá dómnefnd. Þar af voru 17 frá íslenskum stofum eða með þátttöku þeirra.

Frétt um hönnunarsamkeppnina á vef Reykjavíkurborgar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert