Aukin gæði efst á stefnuskránni

Birgir Jakobsson er fyrrverandi forstjóri Karolinska Universitetssjukhuset í Svíþjóð.
Birgir Jakobsson er fyrrverandi forstjóri Karolinska Universitetssjukhuset í Svíþjóð. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Öryggi sjúklinga, aðgengi að þjónustu og aukin gæði í heilbrigðiskerfinu eru meðal þess sem er efst á stefnuskrá nýskipaðs landlæknis, Birgis Jakobssonar, sem tekur við embætti eftir áramót. Hann hefur verið búsettur og starfað í Svíþjóð í 36 ár, en segist hlakka til að koma heim og takast á við ný verkefni.

„Ég fór nú fyrst út til að sérmennta mig í barnalækningum,“ segir Birgir. „Við ætluðum bara að vera 4-5 ár, eitthvað svoleiðis, en síðan hefur þetta dregist á langinn og ég hef unnið þar bæði sem sérfræðingur, við rannsóknir og síðan stjórnunarstörf, fyrsta jafnhliða öðru og síðan eingöngu, síðustu tíu ár,“ segir hann.

Spurður að því hvort hann sé sumsé einn þeirra margumtöluðu lækna sem fóru erlendis í sérnám og snéru aldrei heim, hlær Birgir og segist jú, hafa unnið sem barnalæknir á Landakoti í eitt og hálft ár áður en atvik æxluðust þannig að hann settist að Svíþjóð til lengri tíma.

Þar starfaði hann síðast sem forstjóri Karolinska í Stokkhólmi, en af hverju ákvað hann að koma heim núna?

„Ég er búinn að vinna lengi við þessi störf, þ.e. í stjórnunarstörfum, og hef unnið mikið að umbótum í heilbrigðiskerfinu sem slíku. Og þegar ég lauk störfum við Karolinska sjúkrahúsið seinnipart sumars, þá var ég ekki alveg tilbúinn til að setjast í helgan stein. Mér finnst ég hafa miklar reynslu af því að vinna að þessum störfum, og þegar ég sá auglýsingu  um landlæknisembættið, þá fannst mér athyglisvert að nálgast þetta frá svolítið öðrum sjónarhóli,“ segir Birgir.

Spurður að því hvort hann muni koma inn í starfið með breyttar áherslur segir Birgir að hann eigi eftir að ræða þau mál við heilbrigðisráðherra, en þeir munu funda á næstunni. Honum finnist viðeigandi að eiga samræður við ráðherrann og fleiri um stefnur og sjónarmið áður en hann gefur yfirlýsingar hvað þetta varðar.

„En það er enginn vafi á því að það sem er hátt á minni stefnuskrá er: Hvernig bætir maður gæði og öryggi sjúklinga og aðgengileika að þjónustu og svo framvegis? Hvernig getur maður unnið að því, ásamt öðru fólki?“ segir Birgir.

Sáralítill munur á opinberri og einkarekinni þjónustu

Hvað varðar íslenska heilbrigðiskerfið segist Birgir ávallt hafa fylst með gangi mála hérlendis. Hann segist meðvitaður um að kerfið glími við ákveðna erfiðleika en vonar að þeir séu tímabundnir. „Það er enginn vafi á því að möguleikarnir á því að skapa hér mjög góða heilbrigðisþjónustu eru stórir. Það er gífurlega mikið af fólki með góða menntun og góðan ásetning, þannig að ég held að þetta séu alveg örugglega tímabundnir erfiðleikar, og að það þurfi bara að vinna að þeim á skipulegan hátt.“

Birgir segist ekki vera nægilega vel inni í kjaradeilu lækna til að tjá sig um þau mál, en tekur undir að eitthvað verði að gera til að halda í gott fólk.

„Mér sýnist á umræðunni að báðir aðilar, og hvar sem maður talar við fólk; þá gera allir sér grein fyrir því að fólk innan heilbrigðisstéttarinnar er þannig menntað að það er sóst eftir því, ekki bara innanlands heldur frá öðrum löndum. Og það er skortur á fólki; ég get bara talað um Svíþjóð, það er skortur á fólki þar, og á meðan fólk hefur kost á því að fara erlendis, þá er samkeppni um starfskraftinn. Og Íslendingar verða að mæta þeirri samkeppni, það er augljóst mál.“

Birgir segir áskoranirnar sem blasa við íslenska heilbrigðiskerfinu þær sömu og menn glíma við erlendis.

„Hvernig fær maður allt heilbrigðiskerfið til að vinna saman að hagsmunum sjúklinga? Þannig að gæðin verði betri, öryggi sjúklinga verði betra, og aðgengileiki þjónustunnar verði betri. Það er allt þetta sem verður að bæta, raunverulega. Og ég held að það eigi ekkert meira við um íslenska heilbrigðisþjónustu en heilbrigðisþjónustu almennt,“ segir Birgir.

Spurður að því hvort hann hafi sérstaka skoðun á því hvort breyta þurfi rekstrarforminu á heilbrigðisþjónustunni, segir Birgir það pólitíska spurningu og eitthvað sem hann muni ræða við ráðherra, áður en hann tjáir hvað það varðar.

„Ég hef unnið bæði í opinberri þjónustu og prívat þjónustu sem sjúkrahússtjóri og ég verð að segja eins og er að mín reynsla sýnir að það er sáralítill munur á þessu tvennu,“ segir hann.

Birgir segir málið snúast um að ná fram eins miklum gæðum í þjónustunni og mögulegt er, með eins litlum tilkostnaði og hægt er. „Það er kannski sá hlutur sem þarf að fylgjast betur með; hvaða gæði er þjónustan að veita og gegn hvaða tilkostnaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert