Enn uppsagnir hjá Primera Air

Sjö starfsmönnum á framleiðslusviði flugfélagsins Primera Air hefur verið sagt upp störfum í nóvember. Þeir bætast í hóp þeirra fimm sem var sagt upp í október og níu sem látnir voru fara í september. Enn fleiri látið af störfum hjá flugfélaginu í haust að eigin frumkvæði.

Kristinn Örn Jóhannesson, trúnaðarmaður VR hjá Primera Air, er meðal þeirra starfsmanna sem hafa harðlega gagnrýnt framgöngu stjórnenda fyrirtæksins við uppsagnirnar, en þeir vilja meina að þegar forsvarsmenn Primera Air tilkynntu í ágúst sl. að öll starfsemi flugfélagsins utan þeirrar sem snéri að fjármálasviði yrði flutt til Riga í Lettlandi, hefði verið um eiginlega hópuppsögn að ræða.

Kristinn hefur áður sagt í samtali við Morgunblaðið að alls muni um 50 manns missa vinnuna vegna flutninganna.

„Við lítum svo á að þeir séu að fara í kringum þessi lög, en lögin eru þannig séð þeirra megin; það væri erfitt að vinna mál í þessu af því að framkvæmdin er með þessum hætti,“ segir Kristinn.

Málið hefur verið til skoðunar hjá VR, en fulltrúar stéttarfélagsins hafa m.a. átt fund með Vinnumálastofnun vegna þess. Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, staðfestir að stjórnendur Primera Air hafi verið boðaðir á fund með Vinnumálastofnun nk. þriðjudag, þar sem þeir munu fá tækifæri til að útskýra sína hlið málsins.

Kristinn segist telja líklegt að mál af þessu tagi verði til umræðu í næstu kjarasamningsviðræðum.

„Mér finnst líklegt að stéttarfélögin muni taka þetta upp í samningum. Fá einhverjar bókanir í kringum svona aðferðir. Upp á einhverja skilgreiningu fyrir framan, þá í rauninni hvað ætti að túlka sem yfirvofandi hópuppsögn, fyrst það er ekki skilgreint í lögunum sjálfum,“ segir hann, en í dag nái skilgreiningin aðeins til fjölda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert