Íslenskt tilfelli einstakt á heimsvísu

Reykingar með vatnspípu auka líkurnar á mænugangslofti.
Reykingar með vatnspípu auka líkurnar á mænugangslofti. mbl.is/afp

Loft í mænugangi er afar sjaldgæft ástand en fyrsta íslenska tilfelli mænugangslofts var lýst á lyflæknaþingi sem haldið var um helgina. Atvikið er einnig einstakt á heimsvísu þar sem þetta var í fyrsta skipti svo vitað sé þar sem loftið myndaðist vegna samspils vatnspípureykinga og flugferðar ungs manns sem hafði reykt kannabis úr vatnspípu.

Maðurinn leitaði á bráðamóttöku Landspítalans með mikinn brjóstverk sem hafði versnað eftir flugferð frá útlöndum. Í ljós kom, að maðurinn hafði þar reykt kannabis úr vatnspípu ásamt félögum sínum og voru þeir í keppni um hver gæti haldið lengst niðri í sér andanum. Við það myndaðist loftþrýstingsáverki á lungunum sem versnaði síðan við loftþrýstingsbreytingar í flugferðinni.

Kannabisneytendur í hættu

Læknar á Landspítala voru fljótir að átta sig á ástandi mannsins en erfiðleikar við andardrátt er þekktur fylgikvilli kannabisreykinga að sögn Báru Dísar Benediktsdóttur, læknakandídats á lungnadeild Landspítalans. Hún flutti erindi á ráðstefnu Félags íslenskra lyflækna undir yfirskriftinni: Vatnspípureykingar eru hættulegar – kapp er best með forsjá.

Segir hún tilfelli unga mannsins vera einstakt þar sem loftið var komið inn í mænugang, undir húð og í svonefnt miðmæti, sem er svæðið fyrir miðju brjóstholi milli lungnanna. Var sjúklingurinn greindur með áður óþekktan ofnæmisastma sem gerði hann viðkvæmari fyrir loftþrýstingsáverkum. Var hann meðhöndlaður með súrefni og lyfjum.

Bára Dís segir þá sem reykja kannabis eiga á hættu að þróa með sér slíkan sjúkdóm, sérstaklega ef þeir þjást af undirliggjandi lungna- og öndunarsjúkdómum. „Þeir sem þjást af astma eru mun berskjaldaðri fyrir þrýstiáverkum á lungum.

Þetta á sérstaklega við um þá sem reykja kannabis þar sem þeir stunda það gjarnan að draga endurtekið andann djúpt og halda honum niðri í sér til þess að freista þess að efnið berist í meiri mæli út í blóðrásina og áhrifin verði meiri af reykingunum en það er sérlega hættulegt,“ segir Bára Dís.

Notkun vatnspípna hættuleg

Bára Dís segir áhættuna við kannabisreykingar magnast enn frekar ef notast er við vatnspípu þar sem andað er á móti viðnámi og þrýstingurinn á brjósthol eykst því umtalsvert.

Í umræddu sjúkdómstilfelli greindist loft í mænugangi sem oftast hverfur af sjálfu sér og þarfnast yfirleitt ekki sérstakrar meðhöndlunar. Þrátt fyrir að í þessu tilfelli hafi farið vel þá er mikilvægt fyrir neytendur kannabisefna að hafa það í huga að reykingarnar eru ekki hættulausar, sérstaklega þegar notast er við vatnspípu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert