Náttúrugjald í stað náttúrupassa

Einhugur er innan stjórnar Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) um það að leggja til svokallað náttúrugjald sem innheimt er af ferðamönnum hjá hótelum og gististöðum til uppbyggingar ferðamannastaða á Íslandi. Þykir þessi leið vænlegri en svokallaður náttúrupassi sem seldur yrði ferðamönnum, og er mikil samstaða hjá félagsmönnum um málið. Þetta segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF, í samtali við mbl.is.

Stjórn­völd hafa talað fyrir því að taka í notk­un nátt­úrupassa og yrðu tekj­ur af hon­um nýtt­ar til þess að sinna uppbyggingu og viðhaldi ferðamannastaða. Aðalfundur SAF 2013 ályktaði að samtökin væru tilbúin í að skoða möguleika náttúrupassa en þegar það var gert urðu spurningarnar fleiri en svörin að sögn Helgu.

Þegar Ragn­heiður El­ín Árna­dótt­ir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, frestaði framlagningu frumvarps um náttúrupassa síðastliðið vor, skipaði SAF nefnd sem fór í faglega vinnu til að fá fram skýran vilja félagsmanna hvað varðar gjaldtökufyrirkomulag til uppbyggingu ferðamannastaða. Niðurstaða nefndarinnar var sú að hugmyndir um náttúrupassa væri ekki sú leið sem vænlegast væri að fara, en frekar ætti að líta til náttúrugjaldsins.

Mikilvægt að rýra ekki ásýnd náttúrunnar

Nefndin var að störfum frá apríl þar til nú fyrir stuttu og að sögn Helgu vann hún á faglegan og hlutlausan hátt. Í starfi nefndarinnar fólst m.a. að funda með félagsmönnum um land allt, senda út skoðanakönnun til að meta áhrifaþætti mismunandi fyrirkomulaga, funda með mismunandi hagsmunaaðilum, fá lögfræðiálit og vega og meta mismunandi hugmyndir. 

Stjórn SAF kynnti niðurstöður nefndarinnar á félagsfundi á mánudag. Helga segir ekkert eitt fyrirkomulag augljóst, en eftir að hafa vegið og metið mismunandi skoðanir og gerleika mismunandi gjaldtökufyrirkomulaga hafi niðurstaðan verið sú að SAF telji það einföldustu og skilvirkustu leiðina að leggja mjög hóflegt gjald á ferðamenn, sem innheimt er á hótelum og gististöðum. Þessi leið rýri jafnframt á engan hátt ásýnd náttúrunnar.

„Félagsmenn lögðu hvað mesta áherslu á að það gjaldtökufyrirkomulag sem lagt verður upp með rýri ekki á neinn hátt þessa ásýnd,“ segir Helga. „Skoðanakannanir hafa sýnt að um áttatíu prósent ferðamanna sem koma til landsins gera það vegna náttúrunnar og stærstur hluti þessara ferðamanna nefna kyrrð og ró okkar sérkenni. Hvers konar gjaldtaka og eða eftirlit er rask á þessu.“

Funduðu með ráðuneytinu í dag

SAF funduðu með ráðuneytinu í dag þar sem niðurstöðurnar voru kynntar. Helga segir það mikilvægt og eðlilegt að ráðuneytið viti nákvæma afstöðu samtakanna, en ráðherra hefur talað fyrir náttúrupassanum undanfarna mánuði. „Frumvarpið liggur ekki fyrir og við vitum ekki nákvæmlega hvað í því felst en ráðherrann hefur líka talað um að skoða aðrar útfærslur svo við þurfum bara að bíða og sjá hvað kemur út úr þessu.“

Helga segir of mörgum spurningum enn ósvarað hvað varðar náttúrupassann, til að mynda hvað varðar innheimtu, eftirlit og markaðssetningu. „Við teljum mjög mikilvægt að nú þurfi að höggva hnútinn og tryggja einfalda gjaldtöku svo hægt sé að horfa fram á við,“ segir hún. „Gjaldtökufyrirkomulagið er einn þáttur í þeirri vegferð og það þarf að klára það.“

Möguleiki að skoða gjaldtöku á virðisaukandi þjónustu

Hækkunin á gistináttaskattinum er sú lausn sem SAF horfa til, en Helga segir að einnig megi hugsa sér að skoða möguleika hvað varðar á gjaldtöku á virðisaukandi þjónustu, t.d. möguleika á að rukka fyrir bílastæði eða salernisnotkun. 

„Við þurfum að horfa á það hvernig við ætlum að byggja upp og tryggja uppbyggingu íslenskrar náttúru. Það er stóra verkefnið og á það þurfum við að fara að leggja alla áherslu á,“ segir Helga að lokum.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert