Valdir vegna reynslu af starfstengdu námi

Nema í Lögregluskólanum að störfum.
Nema í Lögregluskólanum að störfum. Kristinn Ingvarsson

Möguleikinn á fjarnámi og reynsla Háskólans á Akureyri og Keilis af starfstengdu námi eru helstu ástæður þess að starfshópur um starfsemi Lögregluskólans leggur til að samið verði við þessar tvær stofnanir um lögreglunám. Þetta segir Karl Gauti Hjaltason, skólastjóri Lögregluskólans.

Innanríkisráðuneytið hefur óskað eftir umsögnum um skýrslu starfshópsins og er frestur til þess fram til 8. desember. Hópurinn gerir meðal annars tillögu um að lögreglunám verði framvegis þriggja ára nám á háskólastigi, skólinn verði sjálfstæð eining en menntun verði útvistuð til menntastofnana að stórum hluta. Leggur hópurinn til að samið verði við Háskólann á Akureyri eða Keili á Suðurnesjum.

„Það var aðallega vegna möguleika á fjarnámi og líka að þessir skólar hafa reynslu af því að sinna starfstengdu námi. Einnig var aðstaða að Keili henta lögregluþjálfun að mörgu leyti, þar eru líkamsræktarsalir, skotæfingasvæði, sundlaug og laust húsnæði,“ segir Karl Gauti sem átti sæti í starfshópnum.

Hann bendir einnig á að það hafi verið talin góð hugmynd að þróa einhvers konar fjarnám vegna vanda landsbyggðarinnar við að manna lögreglustöðvar.

„Ef það er hægt að kenna hluta af náminu í fjarnámi yrði það augljós kostur að fólk þyrfti ekki að flytjast til Reykjavíkur til að fara í nám nema til styttri tíma. Fólk gæti þá sinnt náminu að hluta til í heimahéraði,“ segir skólastjórinn.

Mikið spurt um hvenær verði auglýst eftir nýnemum

Nýnemar verða ekki teknir inn í Lögregluskólann á meðan ekki hefur verið ákveðið hvað framtíð hans ber í skauti sér. Karl Gauti segir að starfsmenn skólans svari daglega fjölda fyrirspurna um hvenær nýir nema verði teknir inn.

„Það er mikið spurt hvenær verði auglýst eftir nýnemum. Við erum bara í þessari óvissu. Það verða ekki teknir inn nýnemar eins og verið hefur í janúar. Það frestast eitthvað og framtíðin er óviss,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert