Bótasvik algengari en á öðrum Norðurlöndum?

Í fyrra rannsakaði eftirlitsdeildin samtals 736 mál.
Í fyrra rannsakaði eftirlitsdeildin samtals 736 mál. mbl.is/Styrmir Kári

Þó svo að atvinnuleysi hafi minnkað fjölgaði málum á seinasta ári sem komu til kasta eftirlitsdeildar Vinnumálastofnunar (VMST) þar sem grunur var um misnotkun í atvinnuleysisbótakerfinu. Að sögn Gísla Davíðs Karlssonar, lögfræðings hjá VMST, má hins vegar ætla að þróunin á þessu ári sé sú að þessum málum sé eitthvað að fækka samhliða fækkun atvinnulausra á skrá.

Í fyrra rannsakaði eftirlitsdeildin samtals 736 mál þar sem grunur lék á að um misnotkun bótanna væri að ræða og þær væru ofgreiddar.

511 málum eða 69% allra tilvika lauk með viðurlögum og tókst að endurheimta ofteknar bætur eða koma í veg fyrir greiðslur sem reynt var að svíkja út upp á alls 565 milljónir króna. Þessar upplýsingar koma fram í ársskýrslu stofnunarinnar.

Mesta aukningin á síðasta ári var við rannsókn stakra mála en eftirlitsdeild VMST tók þá upp 259 mál í kjölfar ábendinga eða þar sem grunur vaknaði um að einstaklingur í atvinnuleit hefði haft rangt við. Alls voru þetta 120 karlar og 139 konur og vörðuðu mörg þessara mála við 60. grein laga um atvinnuleysistryggingar þar sem bóta var beinlínis aflað með sviksamlegum hætti. Einnig koma upp önnur tilvik um misnotkun á kerfinu sem ekki eru þó talin til hreinna bótasvika, ef t.d. bótaþegi situr ekki allt námskeið sem honum ber að gera en heldur áfram sækja bætur sem hann á þá ekki lengur rétt á að fá.

1.200 milljóna sparnaður vegna eftirlits á tveimur árum

Umfang brota í atvinnuleysisbótakerfinu, þar sem einstaklingar hafa fengið bætur sem þeir hafa ekki átt rétt á, hefur verið umtalsvert. Á árunum 2012 og 2013 skilaði eftirlit VMST með bótasvikum samtals hátt í 1.200 milljóna króna sparnaði.

Forsvarsmenn eftirlitsins hafa sagt að þörf sé á hugarfarsbreytingu meðal Íslendinga í þessum málum. Í ársskýrslu VMST segir að mikilvægt sé að fá að vita afstöðu almennings til bótasvika og leggur eftirlitsdeildin til að farið verði í gerð viðhorfskönnunar sem fyrst.

,,Þar væri einnig hægt að fá ákveðnar vísbendingar um umfangið en það er mat eftirlitsdeildar VMST að bótasvik séu algengari á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Í Svíþjóð er talið að bótasvik í almannatryggingakerfum séu 1%, í Noregi er matið 2% og í Danmörku 3-5%,“ segir í árskýrslunni.

Samkeyrslur við skrár skóla, Vegagerðar og fangelsi

Upplýsinga um misnotkun í atvinnuleysisbótakerfinu er aflað með ýmsum hætti. Vinnumálastofnun fær fjölda ábendinga um möguleg bótasvik eða misnotkun og 16 ábendingar bárust frá Ríkisskattstjóra um vinnu sem ekki hafði verið tilkynnt. Einnig eru upplýsingar úr atvinnuleysisskrá samkeyrðar við aðrar skrár s.s. nemendaskrár skóla og við upplýsingakerfið FINNUR sem heldur utan um vinnustaðaeftirlit aðila vinnumarkaðarins.

Þá samkeyrir eftirlitsdeildin upplýsingar frá Fangelsismálastofnun í hverjum mánuði. Einnig eru bornar saman skrár Vegagerðarinnar sem halda utan um akstursheimildir einstaklinga sem aka leigubifreiðum. Í fyrra voru 22 beittir viðurlögum eftir þá athugun og samkeyrslum við nemendaskrár lyktaði með því að 66 sem skráðir voru í nám máttu sæta viðurlögum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert