Efasemdir fóru vaxandi um náttúrupassa

„Við mat á mismunandi gjaldtökuleiðum lögðu félagsmenn í SAF mikla áherslu á að upplifun ferðmanna á íslenskri náttúru skerðist ekki, að þeir fjármunir sem falla til vegna gjaldtökunnar skili sér sannarlega að öllu leyti til uppbyggingar á ferðamannastöðum og að mikilvægt sé að gjaldtakan sé skilvirk og einföld. Gjaldtakan megi ekki hverfast um sjálfa sig.“

Þetta segir í ályktun frá stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar vegna umræðu um með hvaða hætti beri að standa að gjaldtöku á ferðamenn í því skyni að stuðla að uppbyggingu ferðamannastaða. Þar segir ennfremur að samtökin hafi verið reiðubúin að skoða hugmyndir stjórnvalda um náttúrupassa á vormánuðum en í kjölfarið hafi efnasemdaröddum fjölgað innan staða ferðaþjónustunnar. Mikil umræða hafi átt sér stað meðal félagsmanna samtakanna og meðal annars gerð skoðanakönnun.

„Niðurstaða þeirrar vinnu sem SAF hefur verið í á síðustu mánuðum hefur auk þess leitt í ljós að hugmyndin um náttúrupassa er ekki sú leið sem félagsmenn samtakanna telja vænlegasta til árangurs. Samtökin hafa ávallt horft til mikilvægi þess að gjaldtakan sé skilvirk og einföld og að fyrirkomulag hennar tryggi upplifun ferðmannsins um ósnortna náttúru í kyrrð og ró.“ Þess í stað telji SAF hóflegt náttúrugjald, um 1 evru, sem ferðamenn greiði á hverja gistinótt skilvirka leið við gjaldtöku sem rýri ekki á neinn hátt ásýnd náttúrunnar.

„Þessi leið er þekkt um allan heim ásamt því að byggja ofan á þá gjaldtöku sem tíðkast hefur hér á landi undanfarin ár. Leiðin er því einnig vel fær og einföld í allri útfærslu. Þá telja samtökin að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða sé best til þess fallinn að stuðla að nauðsynlegri uppbyggingu fjölfarinna áfangastaða ferðamanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert