Mátti sekta móðurfélagið

Samkeppniseftirlitið
Samkeppniseftirlitið mbl.is/Heiðar

Samkeppniseftirlitið mátti leggja stjórnvaldssektir á fyrirtækið Langasjó ehf. vegna ólöglegs samráðs dótturfyrirtækja þess í kjötvinnslu við verslunina Bónus um smásöluverð og afslætti. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar sem sneri við dómi héraðsdóms hvað þetta varðaði.

Fyrirtækin Síld og fiskur ehf. og Matfugl ehf., sem eru bæði dótturfélög Langasjós ehf., voru talin hafa brotið gegn samkeppnislögum á árunum 2006 og 2008 með samráði við Bónus um smásöluverð og afslætti af því til verslunarinnar. Sektaði Samkeppniseftirlitið móðurfélagið um 80 milljónir króna vegna þess og staðfesti áfrýjunarnefnd samkeppnismála þann úrskurð árið 2012.

Í kjölfarið höfðuðu fyrirtækin mál gegn Samkeppniseftirlitinu og kröfðust þess að ákvörðun þess yrði felld úr gildi.  Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að réttar hefði verið að leggja sekt á dótturfélögin í dómi sínum í desember á síðasta ári.

Samkeppniseftirlitið áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar sem komst í dag að þeirri niðustöðu að því hafi verið heimilt að leggja stjórnvaldssekt á móðurfélagið þar sem félögin hefðu myndað efnahagslega einingu í merkingu samkeppnislaga. 

Dómur Hæstaréttar 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert