Mildaði dóm vegna fíkniefnasmygls

Innpakkað amfetamín. Myndin er úr safni.
Innpakkað amfetamín. Myndin er úr safni. Ljósmynd/Tollgæslan

Fangelsisdómur yfir manni sem dæmdur var í Héraðsdómi Reykjaness fyrir aðild að amfetamínsmygli var mildaður úr tveimur árum í eitt í Hæstarétti í dag. Dómurinn taldi ekki sannað að maðurinn hafi gefið fyrirskipanir um smyglið né hafi hann átt að njóta ágóða vegna þess.

Maðurinn var ákærður og dæmdur í héraðsdómi fyrir að hafa staðið að innflutningi á tæpum 2,4 kílóum af amfetamíni ásamt öðrum manni. Var hann dæmdur í tveggja ára fangelsi í héraði vegna hlutdeildar sinnar í smyglinu sem átti sér stað í janúar í fyrra.

Mönnunum tveimur bara saman um að meðákærði í málinu hafi sett sig í samband við ákærða vegna áforma þess fyrrnefnda um fíkniefnainnflutning. Meðákærði lýsti því í skýrslutökum hjá lögreglu hvernig ákærði hefði gefið honum ráðleggingar um innflutninginn. Hann dró hins vegar þann framburð sinn til baka fyrir dómi.

Í dómi Hæstaréttar segir að ekki hafi verið sannað að ákærði hafi veitt leiðbeiningar um ferðatilhögun og fyrirmæli um innflutning fíkniefnanna. Sjálfur hafi hann neitað því fyrir dómi.

Á hinn bóginn taldi Hæstiréttur sannað með játningu ákærða að hann hafi afhent meðákærða umslag með farsíma og reiðufé og á þann hátt annast milligöngu milli meðákærða og óþekkts manns vegna fyrirhugaðs fíkniefnainnflutnings meðákærða, enda þótt ósannað sé að ákærði hafi fengið meðákærða til verksins.

Á sama hátt væri sannað að ákærði hafi greitt farmiða meðákærða til Þýskalands með greiðslukorti sínu. Með þessu atferli átti ákærði sinn þátt í því að brotið var framið. Að virtri hlutdeild ákærða í brotinu var refsing hans ákveðin fangelsi í 12 mánuði.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert