Vænta allt að 3.000 umsókna

Ásgerður Jóna Flosadóttir. Í desember verður Fjölskylduhjálpin með útibú í …
Ásgerður Jóna Flosadóttir. Í desember verður Fjölskylduhjálpin með útibú í Iðufelli í Reykjavík, Hamraborg í Kópavogi, Strandgötu í Hafnarfirði og Baldursgötu í Reykjanesbæ. mbl.is/Árni Sæberg

Atvinnulausir, láglaunafólk, námsmenn og aldraðir eru meðal þeirra sem leita til Fjölskylduhjálpar Íslands eftir mataraðstoð í hverjum mánuði. Skráning fyrir jólaúthlutun Fjölskylduhjálparinnar hefst í næstu viku en í fyrsta sinn verður úthlutað á fjórum stöðum.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálparinnar, segir það tilfinningu starfsmanna að skjólstæðingum samtakanna fari fjölgandi. „Já, okkur finnst það. Það er mjög mikið af nýjum andlitum, en á móti kemur að það er alltaf einn og einn sem fær vinnu og kemur þá ekki til okkar,“ segir hún.

Ásgerður segir fjölda láglaunafólks ekki ná endum saman, og ekki getað haldið jól. Það leiti til Fjölskylduhjálparinnar. „Og unga fólkið er mikið hérna; námsmenn, og svo þeir sem eru atvinnulausir og þeir sem eru á fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg eða sveitarfélögunum. Og svo náttúrlega gamla fólkið,“ segir hún.

Þá segir Ásgerður talsvert um það að útlendingar leiti eftir aðstoð. „Og við synjum þeim ekki, þeir þurfa líka að borða.“

Árið 2011 voru úthlutanir í desember 3.400 og 2.400 í desember 2012. Ásgerður segist gera ráð fyrir að um 2-3 þúsund fjölskyldur sæki um úthlutun í ár, en geta Fjölskylduhjálparinnar til að aðstoða fólk sé háð því hvaða fjármagni samtökin hafi úr að spila.

Fjölskylduhjálpin fær 4 milljóna króna fjárveitingu frá ríkinu og 2,6 milljónir frá Reykjavíkurborg. Að öðru leiti reiða samtökin sig á góðvild einstaklinga og fyrirtækja, svo og eigin fjáraflanir, m.a. safnanir, framleiðslu og sölu á kertum, svokallaðra kærleiksljósa, og ágóða fjögurra nytjamarkaða.

Spurð að því hvort einhver breyting hafi orðið á fyrirtækjastuðningi í gegnum tíðina segir Ásgerður: „Þetta hefur náttúrulega aldrei verið auðvelt en um leið og fyrirtækin eru farin að styðja okkur og farin að kynnast því hvernig starfið er, þá stendur ekki á þeim.“

Meðal þess sem verður úthlutað um jólin er matur og gjafir, og fatnaður til þeirra sem þurfa.

„Við getum ekki keypt 3.000 hamborgararhryggi, það segir sig sjálft. Þannig að við munum kaupa bayonskinku, bæði nýja og reykta, hún er ódýrust. Og svo er það gos og meðlæti og það eru jólapakkar. Og í raun allt sem þú þarft í jólamatinn; hveiti, sykur, egg og kaffi.“

Upplýsingar um skráningu og úthlutun í desember

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert