Lækka verð á bensíni

mbl.is/Hjörtur

Olíufélögin hafa lækkað verð á bensíni í dag. Kostar lítrinn nú um 223-224 krónur. Verð á heimsmarkaði heldur áfram að lækka og skýrir lækkunina hér.

Atlantsolía lækkaði verð sitt á bensíni og kostar lítrinn nú 223,60 kr. Einnig hefur verið á dísil lækkað. 

„Þar með hefur bensínlítrinn lækkað um 28 krónur frá því í sumar,“ segir Hugi Hreiðarsson, hjá Atlantsolíu. 

Hann segir að á hverju ári séu fluttir inn um það bil 350 milljónir lítra af bensíni og olíu. Lækkun upp á 28 krónur á tímabilinu „skiptir því milljörðum í gjaldeyrissparnaði,“ segir Hugi.

Vegna áframhaldandi lækkunar á heimsmörkuðum halda Skeljungur og Orkan einnig áfram að lækka verð. Nú er lækkunin á bensíni 2 krónur á lítrann og dísil 3 krónur á lítrann. 

Verðið hjá Orkunni er því 223,50 kr/l á bensíni og 224,50 kr/l á dísil.

N1 lækkaði einnig sín verð í dag. Bensínlítrinn lækkaði um 2,00 kr. dísilolían um 3,00 kr. 

Samtals hefur N1 því lækkað verð á bensíni í gær og í dag um 4,00 kr. hvern lítra og 5,00 kr. hvern lítra af dísilolíu, í kjölfar lækkandi heimsmarkaðsverðs á eldsneyti. Frá því í júlí í sumar hefur N1 lækkað verð samtals á bensíni um 27,90 kr. og dísilolíu um 17,40 kr.

Hér má fylgjast með bensínverðinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert