Stefndu á eitt af fimm efstu

„Markmiðið var háleitt og hópurinn ungur og efnilegur. Við settum bara markið hátt og hópurinn skilaði þessum úrslitum,“ segir Þráinn Freyr Vigfússon, fyrirliði Kokkalandsliðsins sem náði fimmta sætinu á Heimsmeistaramótinu í Lúxemburg sem fram fór í vikunni. Liðið kom heim í dag og var fagnað í æfingahúsnæði þess að Bitruhálsi í Reykjavík af kokkum úr Klúbbi matreiðslumeistara, bakhjörlum, samstarfsaðilum, ættingjum og vinum.

Þetta er besti árangur sem kokkalandsliðið hefur náð til þessa en besti árangurinn áður var 8. sæti. Liðið fékk gullverðlaun bæði fyrir kalda borðið sem það framreiddi sem og heita borðið. Samtals tóku 28 lið þátt í mótinu frá jafnmörgum löndum. Singapúr hafnaði í fyrsta sæti, Svíþjóð varð í öðru sæti og Bandaríkin í því þriðja. Markmið liðsins var að ná einu af fimm efstu sætunum á mótinu sem tókst. „Þetta var gríðarlega sterkt mót eins og venjulega. Þarna voru margar þjóðir með langa hefð í þessu eins og liðin þrjú sem urðu í efstu þremur sætunum og við vorum að stimpla okkur rækilega inn þarna.“

Heimsmeistaramótið fer fram á fjögurra ára fresti, en einungis tveir af fulltrúunum í kokkalandsliðinu að þessu sinni höfðu áður farið á slíkt mót að sögn Þráins. Ólympíuleikarnir eru hins vegar eftir tvö ár og eru næsta mót sem liðið stefnir á að taka þátt í. Undirbúningur fyrir keppnina fólst í miklum og ströngum æfingum sem stóðu í eitt og hálft ár. „Þetta er mikil hvatning fyrir hópinn og það verður bara stefnt á enn betri árangur næst.“

Kokkalandsliðið skipa: Hafliði Halldórsson framkvæmdastjóri liðsins (Garra), Þráinn Freyr Vigfússon fyrirliði (Lava Bláa lóninu), Viktor Örn Andrésson liðsstjóri (Lava Bláa lóninu), Fannar Vernharðsson (VOX), Bjarni Siguróli Jakobsson (Slippbarnum), Ylfa Helgadóttir (Kopar), Hafsteinn Ólafsson (Apótekinu), Axel Clausen (Fiskmarkaðnum), Garðar Kári Garðarsson (Strikinu), Daníel Cochran (Kolabrautinni), Ari Þór Gunnarsson (Fiskfélaginu), Hrafnkell Sigríðarson (Bunk Bar) og María Shramko sykurskreytingarmeistari.

Frétt mbl.is: Kokkalandsliðið náði 5. sæti

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert