Vilja jafna rétt vegna andvana fæddra barna

Verðandi móðir í sónar.
Verðandi móðir í sónar. AFP

Þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki standa að baki frumvarpi sem lagt var fram í því skyni að leggja rétt foreldra sem eiga andvana barn eftir 22 vikna meðgöngu að jöfnu við rétt foreldra sem missa barn stuttu eftir fæðingu á meðan á fæðingarorlofi stendur.

Gildandi lög gera greinarmun á rétti til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks í slíkum tilvikum sem nemur sex mánuðum og telja þingmennirnir að engin sanngirnisrök liggi því til grundvallar.

„Fæðing andvana barns er mikið áfall. Missir barns skömmu eftir fæðingu er einnig mikið áfall. Vart er hægt að halda því fram að munur á þessu tvennu sé þess eðlis að hann réttlæti hin ólíku réttindi samkvæmt gildandi lögum. Ef barn deyr í móðurkviði fyrir fæðingu fá foreldrarnir sameiginlega þriggja mánaða fæðingarorlof. Þeir foreldrar sem eignast lifandi barn en missa það skömmu síðar fá hins vegar fulla níu mánuði í samræmi við hina almennu meginreglu um lengd fæðingarorlofs.

Í báðum tilvikum þurfa foreldrarnir að takast á við sambærilegt sorgarferli, til viðbótar því álagi sem fylgir fæðingu barns. Hið andlega bataferli er af sama meiði hvort sem barnið lést í móðurkviði eða stuttu eftir fæðingu,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Með frumvarpinu er því lagt til að réttur foreldra til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks við andvana fæðingu barns verði sjálfstæður í allt að þrjá mánuði fyrir hvort um sig og sameiginlegur í þrjá mánuði að auki, samtals níu mánuðir. Þetta sé í samræmi við tilhögun gildandi reglna við andlát barns skömmu eftir fæðingu sem byggist á hinum almennu réttindum um lengd og skiptingu fæðingarorlofs og fæðingarstyrks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert