Bólusetning gegn flensu mikilvæg

Bóluefni gegn inflúensu er ekki 100% öruggt en það getur …
Bóluefni gegn inflúensu er ekki 100% öruggt en það getur orðið til þess að þeir sem fá flensu hljóti vægari einkenni. AFP

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) segir ýmislegt benda til þess að flensutímabilið gæti orðið óvenju skætt vestanhafs í ár og eru allir landsmenn hvattir til að láta bólusetja sig, en vísað er til þess að flensuveiran hafi verið að breytast. Landlæknisembættið hvetur sömuleiðis alla á Íslandi til að mæta í bólusetningu.

Að sögn CDC er A H3N2 algengasta flensuafbrigðið sem hefur greinst í Bandaríkjunum. Tom Frieden, forstjóri CDC, tekur fram að enn sé of snemmt að fullyrða með vissu að flensutímabilið verði sérstaklega skætt, en hann bætti við að Bandaríkjamenn ættu að vera við öllu búnir. 

„Við getum bjargað lífi fólks með aðferðum sem má skipta í þrennt í baráttunni við flensuna: með bólusetningu, með því að þeir sem eru í áhættuhópi leiti til læknis sem fyrst og í þriðja lagi með forvörnum, s.s. að halda sig heima þegar þú ert veikur, og koma þannig í veg fyrir útbreiðslu flensunnar.“

Engar viðvaranir frá WHO eða ECDC

Guðrún Sigmundsdóttir, yfirlæknir hjá sóttvörnum Landlæknisembættisins, segir í samtali við mbl.is, að svo virðist sem nokkrir flensustofnar hafi verið að breytast, þ.e. flökt hafi orðið á erfðaefninu, og farið vaxandi eftir að bóluefni gegn flensunni var gefið út. Hún segir að upplýsingar CDC byggist á spá sem er ekki alveg öruggt að gangi eftir.

Hún bætir við að engar sérstakar viðvaranir hafi borist frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og frá Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC). „Þeir eru ekki að dreifa neinum póstum um þetta en Bandaríkjamenn eru af einhverri ástæðu að lyfta þessu upp og benda á þetta,“ segir Guðrún.

Bóluefnið gæti virkað verr

„Það sem gæti gerst er að bóluefnið virki svolítið verr. Bóluefnið er ekki 100%. Það sem ég les úr þessu er að veiran hafi farið aðeins meira frá bóluefninu, en bóluefnið hefur samt áhrif. Þeir mæla með því að fólk bólusetji sig samt sem áður af því að þá getur maður fengið mildari veiki,“ segir Guðrún. 

Hún bendir á að tveir stofnar inflúensuveirunnar séu aðallega í dreifingu á ári hverju, þ.e. H1N1, sem var m.a. ráðandi á Íslandi í fyrra, og H3N2, sem hafi verið í umferð í marga áratugi.

Hún tekur fram að þeir sem séu í mestri áhættu séu eldri borgarar og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. „Við erum að bólusetja og hvetjum fólk til að mæta í bólusetningu,“ segir Guðrún.

Upplýsingar um inflúensu á vef landlæknis

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert