Fagmenn að störfum í Höllinni

Það var góð stemning í Laugardalshöll fyrr í kvöld, þegar gítargoðsögnin Slash sté á stokk ásamt söngvaranum Myles Kennedy og hljómsveitinni The Conspirators. „Þetta var bara geðveikt,“ sagði einn tónleikagesta í samtali við mbl.is eftir tónleikana, þar sem tónlistarmennirnir tóku að sjálfsögðu helstu slagara Guns N' Roses.

„Þetta byrjaði bara þegar maður var yngri og var að byrja að hlusta á tónlist. Þá var þetta bara Guns N' Roses og þaðan kemur Slash-áhuginn. Svo hefur maður aðeins fylgst með Slash, hvað hann hefur verið að gera sóló,“ segir Davíð Þór Skúlason, sem var fljótur að kaupa sér miða á tónleikana þegar þeir voru auglýstir.

„Það var ekki alveg fullt hús, en fleira fólk en ég bjóst við,“ sagði Snorri Pétur Eggertsson í samtali við mbl.is að tónleikum loknum. „Þeir tóku held ég sex Guns N' Roses-lög frekar en sjö. Þeir enduðu á Sweet Child of Mine og svo tóku þeir Paradise City sem aukalag og þar á undan tóku þeir Mr. Brownstone.“

Snorri segir kappana kunna sitt fag; þeir hafi skemmt áhorfendum og fengið þá með sér. Þá hafi Myles Kennedy komið skemmtilega á óvart. „Hann kemst ansi nálægt því að vera Axl Rose í raddsviði og hann kom nú eiginlega skemmtilega á óvart, var betri en ég bjóst við,“ segir Snorri. Þá leyndi bassaleikari hljómsveitarinnar á sér. „Þetta eru þrælgóðir hljóðfæraleikarar en bassaleikarinn er magnaður söngvari,“ segir hann. „Hann tók þarna tvö eða þrjú lög og söng bakraddir og maður heyrði að hann er með massarödd.“

Snorri gefur tónleikunum þrjár og hálfa af fimm stjörnum en segir áhugavert að sjá hvernig ákveðnir hlutir hafa breyst. „Breytingin á þungarokkinu á síðustu þrjátíu árum er sú að þeir eru farnir úr snákaskinnskúrekastígvélunum og komnir í hvítbotna strigaskó.“

Hann segir viðeigandi að fyrsta aukalagið sem hljómaði í Höllinni var Immigrant song með Led Zeppelin. Þá hafi upphitunarbandið, Dimma, verið frábært og þeim til mikils hróss að þeir byrjuðu að spila á réttum tíma.

Magnús Sigurbjörnsson var einnig á tónleikunum. „Þeir voru fínir tónleikarnir, hann er seigur karlinn,“ segir Magnús um Slash, sem að sjálfsögðu tók langt gítarsóló í Höllinni í kvöld. „Stemningin var mjög góð, mjög margt fólk, og það er náttúrlega jákvætt þegar erlendir tónlistarmenn koma að það sé vel mætt, svo við höfum nú allavega eitthvað fyrir okkur í að taka inn fleiri erlenda tónlistarmenn,“ segir hann. Stemningin hafi verið mikil þegar Guns N' Roses-lögin hljómuðu og allar hendur á lofti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert