Stærsta björgun íslensks skips

Hollenska flutningaskipið með flóttamennina innanborðs.
Hollenska flutningaskipið með flóttamennina innanborðs. Mynd/Landhelgisgæslan

„Áhöfnin fór í það að sinna konum og börnum í þessum hópi. Við Erum með hjá okkur barnamat og orkudrykki sem við gáfum flóttamönnunum, aðallega fyrir börnin,“ segir Einar Valsson, skipherra á varðskipinu Tý, sem tók þátt í björgun 300 flóttamanna á Miðjarðarhafi í gær. Talið er að björgunin sé sú umfangsmesta sem íslenskt skip hefur nokkurn tímann tekið þátt í. 

„Þetta hófst þegar ítölsk herþota flýgur fram á skipið og nær sambandi við það og kemst að því að það eru 300 manns um borð. Þá eru kölluð til þrjú flutningaskip og eitt af þeim gat lagst utan á skipið og tók flóttafólkið yfir til sín,“ segir Einar.

„Við mætum svo á staðinn og þeir óska eftir aðstoð okkar. Við sendum þá fjóra menn yfir til þess að aðstoða og meta ástandið. Fólkið var búið að vera matar- og vatnslaust í tvo daga en ástandið ágætt um borð,“ segir Einar og bætir við:

„Þegar fólkið áttaði sig á því að við vorum komnir til að veita því hjálp færðist ró yfir það og við gátum sinnt þeim sem voru veikir. Þá myndaðist enginn æsingur.“

Skipið sem tók flóttamennina yfir til sín er hollenskt flutningaskip. Einar segir skipstjórann og áhöfnina hafa staðið sig með prýði. „Þeir róuðust líka þegar þeir fengu fjóra menn frá okkur til að aðstoða sig. Það segir sig sjálft að það er ekkert hlaupið að því að fá 300 manns um borð til sín aukalega. Menn eru ekkert undirbúnir undir það á almennum skipum.“

Flóttamennirnir, sem eru frá Sýrlandi, voru fluttir til Catania á Ítalíu. „Það stóð til að ferja fólkið yfir til okkar og á ítalskt varðskip en það voru ekki aðstæður til þess bæði vegna veðurs og samsetningar hópsins. Það var því ekki talið rétt að taka áhættuna á því. Skipstjórinn ákvað að halda áfram með fólkið um borð hjá sér og það fór til Catania á Sikiley,“ segir Einar. 

Einar hefur unnið að verkefnum fyrir landamæraeftirlit á vegum Evrópusambandsins í fimm ár. Á hverju ári sjá íslensk skip um að bjarga flóttamönnum, en aldrei hafa þeir lent í björgun af þessari stærðargráðu. 

Mynd/Landhelgisgæslan
Varðskipið Týr
Varðskipið Týr Mynd/Landhelgisgæslan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert