Tekur sig ekki hátíðlega

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þetta er ein mín mesta áskorun hingað til og mér finnst þessi tími sem bæjarstjóri hafa breytt mér. Ég er umburðarlyndari og hef meiri húmor fyrir sjálfri mér og umhverfi mínu,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð.

Ásthildur var 36 ára þegar hún tók við bæjarstjórahlutverkinu fyrir vestan og fluttist á Patreksfjörð. Hún hafði búið sig undir að vera „einhleypur bæjarstjóri“ sem myndi að líkindum fljúga suður um helgar. En það var öðru nær. Ásthildur var rétt komin inn fyrir bæjarmörkin þegar hún hitti innfæddan Patreksfirðing, Hafþór Gylfa Jónsson útgerðarmann, sem hún giftist í sumar. Lífsstíllinn varð því aldrei flug fram og baka heldur fara þau hjónin heim í hádeginu á Patreksfirði til að borða hádegismat og hlusta á „Dánarfregnir og jarðarfarir“ upp á gamla mátann og hitta tengdafjölskylduna um helgar. Ásthildur segir að þrátt fyrir annir í starfi sé það engu að síður nærandi og slakandi að vera bæjarstjóri í þessu umhverfi.

Ásthildur hefur vakið athygli fyrir vaska framgöngu fyrir hönd bæjarfélagsins síðustu fjögur árin. Fyrir nokkrum árum fækkaði íbúum Vesturbyggðar en sú þróun virðist vera að snúast við. Þegar sveitarfélagið var stofnað með sameiningu Patreksfjarðar, Bíldudals og sveitahreppa árið 1994 voru íbúar 1.390 og fækkaði þeim næstu áratugi. Í lok ársins 2011 voru þeir komnir niður í 890. Ásthildur segir það afar gleðilegt að síðustu þrjú árin hafi íbúum smám saman verið að fjölga og nýjustu tölur eru 990 íbúar.

Aftur að upphafsorðum Ásthildar. Hvernig virkar það að bæjarstjórahlutverkið lyfti húmornum á næsta plan og geri mann umburðarlyndari?

„Það gerir mann umburðarlyndari að mæta nýjum áskorunum og gera sér í þokkabót grein fyrir því að maður getur ekki alltaf haft allt eftir sínu eigin höfði. Þá er ekki hægt að taka sig of hátíðlega í svo litlu samfélagi. Ég er afslappaðri, leyfi mér meira og hvað á ég að segja – maður getur ekki verið svona,“ segir Ásthildur og rekur nefið með leikrænum tilþrifum upp í loft og hlær. „Mér finnst ég líka hafa þroskast mikið af samneyti við alls konar fólk.“

Eins og frægt er orðið eru þau feðgin Sturla Böðvarsson og Ásthildur og gegna nú á sama tíma bæjarstjórahlutverki, hann í Stykkishólmi og hún hinum megin við Breiðafjörðinn í Vesturbyggð. En þegar Ásthildur var að alast upp var faðir hennar einnig bæjarstjóri í Stykkishólmi, frá árinu sem hún fæddist og þar til hún var orðin 17 ára. Ásthildur var alltaf með augun á því sem var að gerast í kringum föður hennar svo segja má að hún hafi verið í bæjarstjóraþjálfun hálft sitt líf.

Spurði mig hvað ég væri að gera hérna

Ásthildur flutti frá Stykkishólmi til að fara í MR og síðar í Háskóla Íslands í stjórnmálafræði og háskóla í Bandaríkjunum í framhaldsnám í stjórnsýslufræði. Um tíma fluttist hún aftur á æskuslóðirnar og starfaði hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi en þar til hún fluttist á Patreksfjörð árið 2010 bjó hún þó mestmegnis af þeim tíma á Seltjarnarnesi. Auk námsins vann hún meðal annars sem verkefnisstjóri að byggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu og var verkefnisstjóri á rektorsskrifstofu Háskóla Íslands, svo eitthvað sé nefnt. Ásthildur er nú komin á aðeins afskekktari slóðir en hún þekkir úr æsku, með erfiðari samgöngum.

Hvernig kanntu við þig fyrir vestan?

„Mér líður ofsalega vel. Ég er svo mikil sveitakerling. En auðvitað er þetta líka erfitt og mikil áskorun. Fyrsta haustið spurði ég mig: Hvað er ég að gera hérna!,“ segir Ásthildur og hlær. „Svo hugsaði ég með mér, jæja, nú er ég bæjarstjóri og best að finna út úr því hvað bæjarstjórar gera og það lærðist smátt og smátt. Ég var svo heppin að hafa fylgst vel með störfum pabba þegar hann var bæjarstjóri og svo var ég ófeimin við að hringja og leita ráða hjá mínum gömlu vinnuveitendum sem höfðu verið í sveitarstjórnarmálum og fékk góð ráð hjá þeim. Og pabba og mömmu, þau eru oftast bestu ráðgjafarnir. Svo er ég svo heppin að forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar, Friðbjörg Matthíasdóttir, er góð vinkona mín og við fundum einhvern veginn út úr þessu saman, ásamt góðu starfsfólki Vesturbyggðar og bæjarfulltrúum. Ég er líka heppin að hafa unnið með góðum og skynsömum bæjarfulltrúum.

Fyrstu tvö árin voru þung og erfið, það var mikill fjárhagsvandi og erfiðleikar í rekstrinum en við komumst yfir það og ég hef fengið að heyra það að bæjarbragurinn í Vesturbyggð sé allt annar og það gleður mig. Þótt þetta sé hörkuvinna þá erum við núna að takast á við lúxusvandamál miðað við það sem áður var; nú erum við að stækka leikskóla og það er húsnæðisskortur.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert