Efast um barnahristingsdóm

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Hjörtur

Erlendur sérfræðingur í meinafræði gaf skýrslu fyrir héraðsdómi í dag í vegna endurupptöku máls manns sem dæmdur var fyrir að valda dauða níu mánaða gamals barns árið 2001 með því að hrista það. Hann telur frekari rannsóknir hafa þurft til að skera úr um dánarorsökina og að ýmislegt í sjúkrasögu barnsins gæti skýrt dauða þess.

Dr. Waney Squier, tauga- og meinafræðingur við John Radcliffe-sjúkrahúsið í Oxford, kom fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í dag til að gefa skýrslu í tengslum við endurupptöku á máli Sigurðar Guðmundssonar sem var dæmdur í 18 mánaða fangelsi í Hæstarétti árið 2003 fyrir manndráp af gáleysi með því að hafa með hristingi eða öðrum hætti valdið dauða níu mánaða gamals drengs sem hann hafði í daggæslu í Kópavogi í maí 2001. Það var mikil mildun á dómi Héraðsdóms Reykjaness sem hafði dæmt hann í þriggja ára fangelsi. Hæstiréttur féllst á niðurstöðu héraðsdóms um að áverkar drengsins hefðu samsvarað svonefndu „shaken-baby syndrome“ sem nefnt hefur verið barnahristingur á íslensku.

Squier fór yfir gögn málsins, gögn úr krufningu á drengnum og skýrslur lækna. Taldi hún gera hefði þurft frekari rannsóknir til að skera nánar úr um dánarorsök drengsins. Nú viti menn mun meira um myndun blóðtappa í heila barna en þegar málið kom upp. Frekari upplýsingar um mar á fótlegg dregsins, óeðlilegar myndanir í beinum handleggja hans og sjúkrasögu hans og móður hans varðandi D-vitamínsskort sem geti haft áhrif á blóðtappamyndun þurft að liggja fyrir.

Lést mögulega vegna blóðsega eftir fall skömmu áður

Sagði Squier að hún gæti ekki skorið úr um dánarorsök drengsins eða hvers vegna hann hafi misst meðvitund. Niðurstöður rannsókna á heila hans gefi ekki nákvæm svör um það. Ekkert bendi til þess að þræðir í heilavefnum hafi rifnað eða skaðast en allar niðurstöður séu í samræmi við blóð- og súrefnisskort.

Sjúkrasaga drengsins benti hins vegar til að hann hafi ekki verið við heilsu í aðdraganda dauða hans. Hann hafi verið órólegur, kastað upp, matast illa og ekki viljað sofa. Einnig sé til frásögn af því að hann hafi dottið nokkrum dögum áður en einkennin komu fram. Krufning hafi ekki leitt í ljós neina sýkingu sem gæti hafa valdið þessu. Mögulegt sé að fallið hafi valdið einkennunum.

Þekkt sé að ung börn geti fengið flogaköst eftir áföll eins og fall. Þá sé mögulegt að drengurinn hafi borið flogaveiki í genum sínum þar sem móðir hans var flogaveik. Mögulegt sé að tap meðvitundar og dauði hans í kjölfarið hafi stafað af blóðsega af völdum fallsins nokkrum dögum áður. Rannsóknir á börnum sem hafa fengið blóðsega eftir fall gefi til kynna að meðaltíminn á milli fallsins og þess að einkenni komi fram sé um fjórir dagar.

Benti hún jafnframt á að ekki væri hægt að hrista níu mánaða og níu kílóa barn án þess að halda fast um það. Það hefði valdið áverkum og mari á líkama drengsins.

Frétt úr Morgunblaðinu um Hæstaréttardóm í málinu árið 2003 (aðgangur að greinarsafni Morgunblaðsins nausynlegur til að opna greinina)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert